Almar Guðmundsson & Sigríður Hulda Jónsdóttir skrifa:

Garðabær var fyrst sveitarfélaga á Íslandi til að setja sér lýðræðisstefnu árið 2010 og hefur á liðnum árum aukið mjög íbúasamráð meðal annars með opnum íbúafundum, rýnihópum og greiðum leiðum fyrir íbúa til að koma á framfæri ábendingum.


Tillaga um aukið íbúasamráð

Á bæjarstjórnarfundi 3. maí síðastliðinn lögðu undirrituð  fram tillögu um að Garðabær fylgi lýðræðisstefnu sinni eftir með því að setja sér vinnureglur um íbúasamráð sem miða að því að efla enn frekar lýðræðisleg vinnubrögð í sveitarfélaginu og leita nýrra leiða í samtali við íbúa. Í fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir næsta ár verði sett ákveðin fjárhæð í verkefni sem verða skilgreind nánar og unnin í samráði við íbúa svo sem með rafrænni íbúakosningu.

 

Hagsmunir íbúa

Grundvallarskylda sveitarstjórna er að taka ákvarðanir með hliðsjón af þörfum og hagsmunum íbúa og sveitarfélagsins í heild. Sterk tengsl við íbúa sem þekkja eigin nærumhverfi best skapar forsendur fyrir samráðsmenningu og farsælli ákvarðanatöku.

 

37 opnir íbúafundir

 Alls hafa 37 opnir íbúa-, samráðs- og kynningarfundir verið haldnir í Garðabæ á undanförnum fjórum árum. Þessir fundir snúa í flestum tilfellum að ákveðnum málefnum sem eru til umræðu og kynningar eða að ákveðnum hverfum bæjarins þar sem málefni sem snúa sérstaklega að viðkomandi svæði eru  til umræðu. Flestir opnir fundir hafa verið vegna skipulagsmála en einnig hafa verið haldnir opnir íbúafundir um skólamál, fjármál og fjárhagsáætlun, nágrannavörslu og öryggi íbúa, íþrótta og tómstundamál, menningarmál, umhvefismál og fleiri málefni.

 

Bæjarbúar rýna til gagns

Í  kjölfar könnunar á þjónustu bæjarfélagsins á yfirstandandi kjörtímabili var utanaðkomandi fagðili fenginn til að stýra rýnihópum með bæjarbúum í því skyni að fá fram hugmyndir til að efla þjónustuna enn frekar. Þessi nálgun hefur sannanlega skilað hugmyndum sem hefur verið hrint í framkvæmd, ábendingum sem tekið hefur verið tillit til og auðvitað ekki síst góðu og opnu samtali.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ leggja ríka áherslur á að unnið sé með íbúasamráð með skýrum hætti við stjórnun og stjórnsýslu. Íbúar geta treyst því að áfram verður unnið i anda lýðræðisstefnu bæjarins m.a. þannig að rafrænar íbúakosningar um einstök verkefni verði viðhafðar.

Sigríður Hulda Jónsdóttir og Almar Guðmundsson. Höfundar eru bæjarfulltrúar og skipa sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.