Kæru félagar.

Kosningavetur er farinn af stað og á næstu vikum mun fulltrúaráðið í Garðabæ taka ákvörðun um hvaða leið verður farin við val á lista Sjálfstæðismanna í Garðabæ.

Það er ljóst að þegar kosningabaráttan fer af stað af fullum krafti verður mikilvægt fyrir Sjálfstæðisflokkinn að hafa gott fólk til taks sem hefur áhuga á að hjálpa til við baráttuna á einn eða annan hátt. Við höfum því sett upp skráningarsíðu á www.gardar.is/bakvordur/ þar sem þú getur skráð þig í nokkurs konar bakvarðasveit. Þetta auðveldar okkur að vera í sambandi við þig þegar að verkefninu kemur.

Við sitjum þó ekki auðum höndum og vildum minna á nokkra viðburði fram undan.

Þann 19.nóvember n.k. kl. 18:00 koma til okkar þau Stefán Einar Stefánsson, blaðamaður, og Hildur Sverrisdóttir, þingmaður í pólitískar pælingar. Á þessum viðburði má búast við að pólitíkin verði krufin og talað tæpitungulaust um stöðuna í þjóðfélaginu. Létt og skemmtileg stemning, bjór og búbblur.

Þann 29.nóvember frá kl. 13-16 fer svo fram aðventuhátíð Garðabæjar á Garðatorgi. Síðustu ár hefur Sjálfstæðisfélagið boðið gestum upp á heitt súkkulaði í félagsheimilinu og engin breyting verður þar á. Endilega takið daginn frá.

Þá vekjum við athygli á viðburði nú um helgina en nýlega kom út um bók Hrannars Braga Eyjólfssonar, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um séra Braga Friðriksson. Bragi var einn af máttarstólpum Garðabæjar og samfélagsins hér og kom að mörgum mikilvægum verkefnum í félagslegri uppbyggingu bæjarins. Útgáfu bókarinnar verður fagnað með hátíðarmessu á sunnudaginn n.k. 9.nóvember kl. 11:00 í Vídalínskirkju þar sem Hrannar Bragi mun einnig vera með bókina til sölu og áritar eintök.

Sjálfstæðisfélag Garðabæjar