Við berum öll ábyrgð – gegn einelti

Einelti á aldrei að líðast og við berum öll ábyrgð sem fyrirmyndir. Við berum ábyrgð með framkomu okkar, sjálfsstjórn og samskiptum á heimili og við vini, hvernig og hvenær við drögum mörk og ekki síst hvernig við leiðbeinum börnum og ungmennum í samskiptum og hjálpum þeim að setja sig í spor annarra. Hundsun, að skilja útundan eða taka sig saman um að mæta ekki í boð er ekki síður einelti en árás eða meiðandi skilaboð. Þriðjudagurinn 8. nóvember er baráttudagur gegn einelti. Markmið dagsins er m.a. að efna til umræðu, fræðslu og viðburða til að vinna gegn einelti, hvetja til jákvæðra samskipta og efla vináttu. Alla daga vinna skólar í Garðabæ með samskipti og virðingu hjá nemendum sínum en þessa vikuna er sjónum sérstaklega beint að samskiptafærni og vellíðan í félagahópnum. Þetta er gert með magvíslegum hætti og ætla ég hér að nefna nokkur dæmi hér auk þess að segja frá endurskoðun á eineltisstefnu bæjarins sem nú stendur yfir.

Jákvæð og neikvæð samskipti

Í skólunum fer fram umræða og unnið er með margvísleg verkefni um hvernig við erum og viljum vera í samskiptum, s.s. samskiptareglur: Hvað er að vera góður vinur, hvað eru jákvæð og neikvæð samskipti, í hverju felst virðing, hvernig setjum við okkur í spor hvers annars, hvernig birtist jafnrétti og mismunun í daglegum samskiptum, hvað er einelti og yfirgangur, hvernig birtist einelti á netinu o.fl.  Rætt er um leiðir til að eignast nýja vini, hvað felst í vináttu, hvernig við stöndum með vinum okkar o.fl. Þannig er félagsfærni efld meðal nemenda. Í hverri umsjónarstofu eru veggspjöldin ,,Gegn einelti í Garðabæ“ sem minna nemendur á hve mikilvæg góð samskipti eru og skapa viðmið um hvernig samskipti við viljum og hvað við líðum ekki.

Mörk í samskiptum

Rætt er um mörk í samskiptum, hvernig yfirgangur birtist og leiðir fyrir barn bæði til að stýra eigin framkomu og til að bregðast við ef það verður fyrir yfirgangi eða verður vitni að slíku. Þar er m.a. unnið út frá veggspjaldinu ,,Verum verndarar“ sem er með margvíslegum svörum fyrir börn til að draga mörk og bregðast við slæmri framkomu. Útskýrt er fyrir nemendum að þau geti verið verndarar með því að segja eitthvað við þann sem kemur illa fram, eða við þann sem verður fyrir slæmri framkomu og jafnframt sé hægt að biðja fullorðin aðila um aðstoð. Farið er yfir dæmi um setningar og svör, atriði eins og líkamsstöðu og raddbeitingu. Verkefnið gengur út á að efla félagsþroska og -færni til að greina á milli hegðunar sem er ásættanleg og hegðunar sem er yfirgangur auk þess að hafa hugrekki til að draga mörk í samskiptum.

Endurgerð eineltisáætlunar Garðabæjar

Nú er unnið að endurgerð eineltisáætlunar Garðabæjar en hún var gerð árið 2013 og endurskoðuð 2018. Teymið sem vinnur við endurgerðina eru allir aðstoðarskólastjórar og námsráðgjafar en grunn- og tónlistarskólafulltrúi Garðabæjar stýrir verkinu. Vinnan hófst á fræðsludegi skólanna í haust undir stjórn Vöndu Sigurðardóttur sérfræðings í eineltismálum sem er handleiðari í verkefninu. Inntak fræðslunnar var hagnýt yfirferð yfir forvarnir gegn einelti og inngrip þegar um einelti er að ræða.

Samskiptaþjálfun

Ný eineltis- eða samskiptaáætlun verður heildræn stefna sem tekur mið af því að einelti er félagsleg hegðun. Hún byggir á því að þjálfa nemendur í góðum samskiptum og skapa þannig góða skólamenningu. Þjálfun í samskiptafærni felst meðal annars í því að átta sig á eigin framkomu og áhrifum hennar, hvernig hægt er að hafa sjálfsstjórn, aðferðum til að auka félags- og tilfinningafærni, vináttufærni og sjáflsöryggi nemenda. Kjarnahugsunin er: Hvað viljum við að einkenni samskipti okkar?

Skóli, foreldrar, samfélag

Einelti er félagslegt vandamál sem skólinn vinnur ekki einn með, foreldrar og allt samfélagið þarf að taka þátt í að þjálfa börn í heilbrigðum samskiptum og leysa einelti ef slíkt kemur upp. Þegar skólar vinna með mál sem eru annað hvort  samskiptavandi eða einelti þá má aldrei gleyma að við erum að vinna með börn hvort sem það eru þolendur eða gerendur. Það þurfa allir að vanda sig; hvað er sagt, hvar og hvernig, ekki síst við fullorðna fólkið sem tjáum okkur t.d. á  kommentakerfum eða samfélagsmiðlum.

Ábyrgð okkar

Einelti birtist því miður í samfélaginu í hópum, skólum og á vinnustöðum. Menningin, samskiptmynstur, fyrirmyndir fullorðinna, skóla- og vinnustaðabragur hefur áhrif á hvernig við hugsum og framkvæmum og því er lykilatriði til að skapa heilbrigða menningu. Samtal  og samskipti við eldhúsborðið á heimilinu getur endurspeglast í framkomu barns í skólanum. Við þurfum öll að vanda okkur, leggja áherslu á að vera góðar fyrirmyndir í framkomu og samskiptum og leiðbeina ungmennum.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar og formaður skólanefndar Garðabæjar

Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum 10.nóvember 2022.