Unga fólkið og uppbyggingin

Áslaug Hulda Jónsdóttir skrifar:

Það vantar húsnæði á höfuðborgarsvæðinu en uppbygging hefur verið mikil í Garðabæ. Á kjörtímabilinu hefur íbúðum í Garðabæ fjölgað um 10,9% á sama tíma og meðaltalið á höfuðborgarsvæðinu var 4,3%. Við þurfum að halda áfram.

 

Öríbúðir og hverfi fyrir ungt fólk

Við viljum og höfum unnið að því að ungt fólk hafi kost á aðbúa í Garðabæ. Í Lyngási rís nýtt hverfi sem er fyrir ungt fjölskyldufólk. Á kjörtímabilinu var haldin hugmyndasamkeppni um skipulag slíks hverfis þar sem sérstaklega var horft til þarfa ungs fólks. Í Urriðaholti hefur verið mikil uppbygging og þar er m.a. verið að byggja öríbúðir í samvinnu við IKEA sem fjölgar valkostum á húsnæði í Garðabæ. Á Álftanesi er skipulagsvinna í gangi en þar er unnið með miðbæjarsvæði sem er í nálægð við skóla, íþrótta- og tómstundamannvirki.

Á síðasta ári keypti Garðabær land Vífilsstaða af ríkinu og fékk þá um leið umráðarétt og skipulagsvald. Þetta var mikilvægur áfangi. Skipulagsvinna er þegar komin af stað og þar verður fjölbreytt og spennandi hverfi með ólíkumhúsnæðiskostum. Þar verður byggt upp nýtt skólahverfi ásamt fjölnota íþróttahúsi sem rís í Vetrarmýri. Það hefur því margt áunnist á kjörtímabilinu og mörg spennandi verkefni í farvegi.

 

Höldum áfram

Uppbygging og aukið framboð hefur áhrif og eykur möguleika ungs fólks á því að fá húsnæði. En við þurfum að ganga lengra. Við æltum að skoða nýjar og fjölbreyttar leiðir í búsetuúrræðum fyrir ungt fólk. Tryggja þarf að yngra fólk hafi forgang að hluta lóða á þeim svæðum sem uppbygging er að hefjast. Skoða þarf möguleika á samvinnu við félög sem tryggja ungu fólki húsnæði og valkostum á leigu þarf að fjölga. Þetta getum við því Garðabær á land til uppbyggingar, uppbygging er hafin og skipulag í farvegi. Næstu skref er að forgangsraða þannig að búseta í Garðabæ verði raunverulegur valkostur fyrir ungt fólk.

 

Áslaug Hulda Jónsdóttir, formaður bæjarráðs og skipar 1. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins