Þróunarsjóður grunnskóla í Garðabæ úthlutar 28 milljónum til 15 verkefna

Þróunarsjóður grunnskóla í Garðabæ var stofnaður 2014 og hefur síðan úthlutað árlega um 28 milljónum til margvíslegra þróunarverkefna sem unnin eru í grunnskólum bæjarins. Nánari upplýsingar og yfirlit yfir þróunarverkefnin má sjá á heimasíðu bæjarins. Mörg verkefnanna eru samvinnuverkefni milli skóla og skólastiga, samvinnuverkefni við vísinda- og háskólasamfélagið og erlenda fagaðila.

Framþróun í skólastarfi í Garðabæ

Sjóðurinn var stofnaður til að efla nýbreytni og framþróun í skólastarfi sveitarfélagsins. Einstaka kennarar, kennarahópar, aðrir fagaðilar sem starfa við grunnskóla í Garðabæ, einn skóli eða fleiri skólar/fagaðilar í sameiningu, fræðslu- og menningarsvið í samstarfi við skóla, geta sótt um styrk í Þróunarsjóðinn.

Markmið sjóðsins er að styðja við öflugt innra starf skóla með því að veita styrki til verkefna sem stuðla að þróun í kennslu og námi og telja skólastjórnendur að sjóðurinn hafi skilað því hlutverki. Þróunarsjóðurinn er mikilvægur drifkraftur nýsköpunar í skólasamfélaginu okkar.

Áherslur og úthlutun 2025

Áheslur við úthlutun úr Þróunarsjóði nú í ár voru þessar helstar:

  • Fjölbreyttir kennsluhættir og samþætting námsgreina
  • Félags-, samskipta og vináttuþjálfun með áherslu á samkennd
  • Efling verklegra þátta í náttúrufræði á öllum skólastigum
  • Námsefnisgerð, nýsköpun og tækni
  • Samstarf heimilis og skóla
  • Skólasókn; leiðir til að efla áhuga og mætingu nemenda og vinna gegn slakri skólasókn og/eða skólaforðun.

Samtals var sótt um styrki fyrir um 32 milljónir og fimmtán fjölbreytt verkefni innan skólasamfélagsins. Niðurstaðan var sú að öll verkefni fengu styrk, sum fullan styrk en önnur hlutastyrk. Verkefnin ná til margvíslegra þátta í skólastarfi, allt frá málörvun og lestrarþjálfun til félagsfærni, umhverfisvitundar og samþættingar námsgreina.

Dæmi um þróunarverkefni 2025

Sem dæmi má nefna verkefni sem snýr að nútímavæðingu tungumálakennslu, og verkefnið Íslenskan er okkar sem miðar að því að styðja við máltilfinningu barna.

Umhverfismál fá einnig vægi, þar á meðal með verkefninu Ekki rusl heldur fjársjóður! sem fjallar um textílendurnýtingu. Verkefni sem snúa að félagsfærni og vellíðan barna eru áberandi, t.d. verkefnin Vináttufærni, Öflugri strákar og UPPRIGHT – félags- og tilfinningaþjálfun, þessu verkefni styðja við geðrækt og jákvæð samskipti meðal nemenda. Verkefnið Hvað kostar að lifa kennir börnum fjármálalæsi.
Við höldum líka áfram að huga að því að hvetja börn áfram í lestri með verkefnum eins og  Litlu Lestrarhestarnir og Að hafa gagn og gaman af lestri.

Sérstaða og sjálfstæði skóla

Auk ofangreindra þátta er grunnskólum í Garðabæ frjálst að sækja um önnur verkefni sem stuðla að sérstöðu og sjálfstæði grunnskóla í Garðabæ, framþróun og öflugu innra starfi sbr. 1. gr. í reglum um úthlutun úr Þróunarsjóði grunnskóla í Garðabæ. Við viljum stuðla að því að nemendur og foreldrar hafi val um fjölbreytta og öfluga grunnskóla með mismunandi áherslur í hugmyndafræði og skólastarfi.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður skólanefndar og bæjarfulltrúi

Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum, 6. maí 2025.