Þjónusta á tímum Covid

Gunnar Einarsson, bæjarstjóri, skrifar:

Álag á framlínufólk hefur verið mikið á liðnu ári og ekki síst hjá starfsfólki sveitarfélaga. Í ljósi þessa er þakkarvert að Garðabær lendir í 1. sæti þegar íbúar eru spurðir um ánægju með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið í samanburði við önnur sveitarfélög. Þetta kemur fram í nýlegum niðurstöðum árlegrar þjónustukönnunar Gallup þar sem viðhorf íbúa til þjónustu í 20 stærstu sveitarfélögum landsins er mælt. Garðabær lendir einnig í efsta sæti þegar spurt er um ánægju íbúa á heildina litið með sveitarfélagið sem stað til að búa á og þegar spurt er um gæði umhverfisins í nágrenni við heimili.

Garðabær hefur á liðnum árum nýtt niðurstöðurnar til að gera enn betur.  Áfram eru sóknarfæri í að bæta þjónustu við fatlað fólk og eldri borgara í sveitarfélaginu en þeir sem nýta þjónustuna eru ánægðari með hana en aðrir aðspurðir. Ánægjulegt er að Garðabær skorar áfram hátt þegar spurt er um þjónustu við barnafjölskyldur og er þar í 2. sæti á heildina litið eða efst ef tekið er mið af 9 fjölmennustu sveitarfélögunum.

Mikil íbúafjölgun hefur átt sér stað í Garðabæ á liðnu ári og íbúar bæjarins eru núna að nálgast 18 þúsund. Næst mesta fjölgun íbúa á landinu öllu á síðasta ári var í Garðabæ og hlutfallslega var mest fjölgun í Garðabæ í samanburði við önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu eða um 4,5% fjölgun.  Það er áskorun að halda áfram úti góðri þjónustu um leið og mikil uppbygging á sér stað í bæjarfélaginu. Þegar spurt er um ánægju með skipulagsmál almennt er Garðabær í 1-2. sæti.

Jákvæðni, fagmennska og áreiðanleiki eru gildi Garðabæjar og það má með sanni segja að þau hafi verið í hávegum höfð við að halda úti þjónustu bæjarins á krefjandi tímum sem þessum. Það er vert að þakka fyrir dugnað og umhyggju starfsmanna Garðabæjar um leið bæjarbúum er þakkað fyrir góðar ábendingar um það sem betur má fara. Verkefnið er áfram að bæta það sem betur má fara í okkar annars góða samfélagi.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu 12.janúar 2020.