Við framlagningu fjárhagsáætlunar Garðabæjar fyrir árið 2025 höfðum við bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eins og ávallt að leiðarljósi ábyrgan rekstur bæjarfélagsins, lágar skattálögur og framúrskarandi þjónustu við bæjarbúa.
Meðal velferðarmála sem við horfðum sérstaklega til á yfirstandandi ári var að vinna gegn félagslegri einangrun eldra fólk, þróa áfram og bæta þjónustu við fatlað fólk ásamt því að hefja undirbúning að nýjum búsetuúrræðum fyrir fatlað fólk.
Sterk staða bæjarsjóðs
Árshlutauppgjör Garðabæjar fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2025 endurspeglar sterka fjárhagslega stöðu bæjarsjóðs og rekstur í góðu jafnvægi. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 287 milljónir króna, grunnreksturinn eflist, sjóðsstreymi bæjarsjóðs styrkist enn og uppgjörið er í góðum takti við fjárhagsáætlun ársins.
Þrátt fyrir miklar fjárfestingar í innviðum bæjarins á fyrri hluta ársins 2025 voru langtímalántökur hóflegar og skammtímaskuldir lækkuðu verulega á þessu sama tímabili.
Áætlað er að bæjarsjóður skili rúmlega 700 m.kr. rekstrarhagnaði á árinu 2025.
Veltufé frá rekstri er ein mikilvægasta kennitalan í rekstri sveitarfélaga. Þetta er fjárhæðin sem afgangs verður þegar búið er að greiða allan rekstrarkostnað og alla vexti af lánum bæjarins. Veltufé frá rekstri bæjarsjóðs nam rúmum 1.400 milljónum króna á fyrri hluta ársins sem er liðlega helmingurinn af áætluðu veltufé frá rekstri á árinu 2025.
Samanlagt veltufé frá rekstri bæjarsjóðs Garðabæjar síðastliðin átta ár, 2017-2024 og það sem er af árinu 2025, nam tæpum 16.000 m.kr. – sextán þúsund milljónum króna, á verðlagi hvers árs. Á sama tíma hafa Garðbæingar búið við lægsta útsvarið og eitt lægsta álagningarhlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði meðal stærstu sveitarfélaga landsins.
Geysilega öflugt virkniþing eldra fólks
Nú í ágúst stóð Garðabær ásamt félögum eldri borgara í Garðabæ og á Álftanesi að afar vel heppnuðu virkniþingi eldra fólks í Miðgarði. Markmið með þinginu var að stuðla að félagslegri virkni og auknum lífsgæðum eldra fólks í Garðabæ. Fjöldi fólks sótti þingið og kynnti sér allt það fjölbreytta starf sem eldri borgurum í Garðabæ stendur til boða.
Harpa Rós Gísladóttir, varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og formaður öldungaráðs Garðabæjar setti þingið, en öldungaráð samþykkti fyrr á árinu metnaðarfulla aðgerðaáætlun í málefnum eldra fólks í Garðabæ fyrir árin 2025 og 2026. Stefna Garðabæjar í málefnum eldra fólks var samþykkt í bæjarstjórn 2016 og gildir til ársins 2026. Hin nýja aðgerðaáætlun öldungaráðs byggir á þeirri stefnu.
Bæjarstjórn Garðabæjar hefur skýra framtíðarsýn í málefnum eldra fólks. Markmiðið er að efla lífsgæði eldri íbúanna okkar með heildstæðri sýn á þjónustu bæjarins og rík áhersla er lögð á stöðuga þróun í málaflokknum.
Með öflugu starfi eldra fólksins okkar er lagður grunnur að samheldni og blómlegu samfélagi í Garðabæ.
Frístundaþjónusta fyrir fötluð börn og ungmenni
Sveitarfélög skulu veita fötluðum börnum og ungmennum frístundaþjónustu eftir að reglubundnum skóladegi þeirra lýkur og á dögum, öðrum en lögbundnum frídögum, sem skólar starfa ekki.
Frístundaþjónusta 5.-10. bekkjar nemenda í Garðabæ heitir Garðahraun og er til húsa á efri hæð íþróttamiðstöðvarinnar á Álftanesi. Þar fá 15-18 einstaklingar að jafnaði frístundaþjónustu.
Frá hausti 2025 hætti Garðabær að mestu að kaupa frístundaþjónustu fyrir fötluð ungmenni (16-18 ára) af Vinaskjóli í Hafnarfirði. Þess í stað er nú tekið á móti sjö ungmennum í Garðahrauni þar sem þau hafa viðveru að loknu skólastarfi ásamt 5.-10. bekkjar nemendum. Að auki er aðstaða Elítunnar, sem er félagsmiðstöð Álftanesskóla, nýtt að hluta fyrir frístundaþjónustu ungmennanna.
Áætlað er að eftir tvö ár muni 20-25 einstaklingar í Garðabæ kalla eftir frístundaþjónustu fatlaðra ungmenna. Velferðarráð er með á dagskrá hjá sér að finna varanlegt húsnæði fyrir starfsemina og áformar að niðurstaða í málinu liggi fyrir á fyrri hluta næsta árs.
Búsetukjarni fyrir fatlað fólk í Hnoðraholti
Garðabær rekur um þessar mundir um 30 búsetuúrræði fyrir fatlað fólk í bænum. Ýmist er um að ræða herbergjasambýli, félagslegar íbúðir eða búsetukjarna. Í september 2019 opnaði sex íbúða búsetukjarni í Unnargrund 2 og sjö íbúða kjarni í Brekkuási 2 opnaði í nóvember 2023. Einnig er Garðabær í samstarfi við Brynju leigufélag um íbúðir fyrir öryrkja og fatlað fólk. Brynja leigufélag á nú 29 íbúðir í bænum og þeim mun fjölga nokkuð á næstu árum.
Nú er á undirbúningsstigi bygging 6-7 íbúða búsetukjarna í Hnoðraholti fyrir einstaklinga sem þurfa sólarhringsþjónustu. Auk þess er til skoðunar 4-6 íbúða búsetueining í Hnoðraholti fyrir fatlaða einstaklinga sem geta búið sjálfstætt með stuðningi frá búsetukjarna. Málið er í vinnslu hjá velferðarráði sem hefur í samráði við skipulagsnefnd Garðabæjar lagt til staðsetningu tveggja lóða á fallegum stað í háholti Hnoðraholts undir starfsemina.
Forhönnun búsetukjarnans er hafin og arkitekt kominn að verkinu. Stefnt er að því að frumteikningar verði til kynningar á fundi velferðarráðs í október nk.
Vinna rýnihópa um málefni fatlaðs fólks í Garðabæ
Í maí síðastliðnum voru tveir rýnihópar kallaðir til, annar hópurinn samanstóð af fötluðum einstaklingum 18 ára eða eldri, foreldrum eða aðstandendum fatlaðra einstaklinga 18 ára eða eldri og talsmanni einstaklings með fötlun 18 ára eða eldri, hinn hópurinn samanstóð af foreldrum eða aðstandendum fatlaðra barna 0-18 ára. Umræðustjórn var í höndum starfsmanns Gallup.
Markmið með vinnu rýnihópanna var að öðlast dýpri skilning á viðhorfum, upplifun og þörfum þjónustuþega og kanna væntingar fólks til þjónustunnar með það að markmiði að styðja við umbætur og þróun þjónustu við fatlað fólk í Garðabæ.
Meðal þess sem kom fram hjá rýnihópunum er að búsetuúrræði vega einna þyngst í lífi fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra. Öruggt búsetuúrræði er lykillinn að auknu sjálfstæði fatlaðra barna og ungmenna og í raun forsenda þess að fatlað fólk fái að lifa sjálfstæðu og innihaldsríku lífi.
Rýnihóparnir lögðu til úrbætur í málaflokknum í nokkrum liðum sem velferðarráð hefur fengið í sínar hendur og samþykkti í kjölfarið að hefja vinnu við endurskoðun á stefnu í málefnum fatlaðs fólks í Garðabæ á grundvelli niðurstöðu rýnihópavinnunnar.
Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi og formaður velferðarráðs Garðabæjar
Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum, 25. september 2025.
