Ársreikningur Garðabæjar fyrir árið 2017, sem lagður var fram á fundi bæjarráðs Garðabæjar í dag, þriðjudaginn 13. mars 2018, lýsir mjög sterkri fjárhagsstöðu sveitarfélagsins.
Rekstarafgangur nemur 1.153 millj. kr. en áætlun hafði gert ráð fyrir 520 millj. kr. rekstrarafgangi. Veltufé frá rekstri nam 2.215 millj. kr. sem er um 16% í hlutfalli við rekstartekjur.
Betri rekstrarafkoma á árinu 2017 skýrist fyrst og fremst af fjölgun íbúa umfram það sem gert var ráð fyrir í áætlun. Í árslok 2017 voru íbúar Garðbæjar 15.700 og hafði fjölgað um 3% en áætlun gerði ráð fyrir 1,5% fjölgun, íbúafjölgunin hefur í för með sér umtalverða hækkun skatttekna.
Rekstur málaflokka er í mjög góðu samræmi við fjárhagsáætlun eins og rekstrarniðurstaða gefur til kynna og til marks um það þá eru samanlögð útgjöld þriggja stærstu málaflokkanna þ.e. félagsþjónustu, fræðslumála og æskulýðs- og íþróttamála 9.424 millj. kr. en áætlun gerði ráð fyrir 9.367 millj. kr. færi til þessara málaflokka og er frávik innan við 1%.
Kennitölur í rekstri bera vott um mjög trausta fjárhagsstöðu sveitarfélagsins. Skuldahlutfall er 85% og svokallað skuldaviðmið 69%. Rekstrarniðurstaða er jákvæð um 8% og fjárfesting nam 21% í hlutfalli við rekstrartekur. Veltufjárhlutfall nemur 0,64 og eiginfjárhlutfall 57%.
Fjárfestingar á árinu námu rúmlega 2.940 millj. kr. og hafa aldrei verið meiri. Helstu framkvæmdir voru við íþróttamannvirki sem námu samtals um 1.082 millj. kr., byggingarkostnaður Urriðaholtsskóla nam 650 millj. kr., kaup á Vífilsstaðalandi námu 559 millj. kr. auk gatnaframkvæmda og ýmissa annarra smærri framkvæmda. Sundlaugin við Ásgarð verður opnuð að nýju um miðjan apríl eftir gagngerar endurbætur og þá mun leikskóladeild hefja starfsemi í Urriðaholtsskóla í byrjun apríl.
Lántaka á árinu 2017 nam samtals 1.289 millj. kr. eða rúmlega 40% af framkvæmdum ársins. Allur rekstrarafgangur var því nýttur til framkvæmda og uppbyggingar innviða bæjarins.
Traust og sterk fjárhagsstaða Garðabæjar er undirstaða þess að Garðabær sé vel undir það búinn að mæta þjónustu við nýja íbúa samhliða uppbyggingu nýrra hverfa. Í þriggja ára áætlun sveitarfélagsins er m.a. gert ráð fyrir að byggt verði fjölnota íþróttahús austan Reykjanesbrautar, viðbyggingu við Álftanesskóla, að lokið verði við byggingu íbúða fyrir fatlað fólk við Unnargrund, uppbyggingu bæjargarðs með íþróttaaðstöðu og göngu- og skokkstígum, að lokið verði við framkvæmdir á fjölnota fundarsal á bæjarskrifstofum og að útilífsmiðstöð verði byggð í samstarfi með Skátafélaginu Vífli. Auk þess sem áfram verður unnið að gatnagerð og endurnýjun lagna og gangstétta í eldri hverfum bæjarins.
Ársreikningur Garðabæjar verður tekinn til fyrri umræðu í bæjarstjórn Garðabæjar fimmtudaginn 15. mars nk.
Ársreikningur Garðabæjar 2017 (pdf-skjal)