Skólabyrjun: Þegar gleði og festa haldast í hendur

Um 2600 nemendur í Garðabæ eru um það bil að hefja skólagöngu eða byrja aftur í skólanum þessa vikuna. Þeirra bíður stór starfsmannahópur tilbúinn til að takast við verkefni vetrarins þar sem áhersla verður meðal annars á nemendalýðræði. Til dæmis mun hluti nemenda fá að stýra foreldraviðtölunum ásamt kennurunum sínum, fara yfir styrkleika sína og setja sér þannig sjálf markmið fyrir skólastarfið í vetur.

Fimm ára deild í Sjálandsskóla

Við Sjálandsskóla hóf fimm ára deild göngu sína í liðinni viku. Foreldrum barna í Garðabæ stendur til boða að innrita fimm ára börn í Sjálandsskóla, en Garðabær hefur um áraraðir rekið slíka deild við Flataskóla með góðum árangri. Þar sem leikskóladeildin er í sama húsnæði og Sjálandsskóli veitir það góð tækifæri til að brúa bilið á milli skólastiga en starfsemin samtvinnast markvisst við grunnskólann. Börnin munu vinna í gegnum leik og læra meðal annars jóga, hugarfrelsi, bóklestur, samvinnu og markmiðasetningu að ógleymdum vinastundum.

Símenntun starfsfólks

Starfsfólki skólanna verður einnig boðin ýmis sí- og endurmenntun í vetur og eru fyrirhuguð fjölmörg áhugaverð námskeið skipulögð af fræðsluskrifstofunni og skólastjórnendum. Til dæmis má nefna að allir nýir kennarar í grunnskólum bæjarins fá byrjendanámskeið í KVAN verkfærakistunni sem hefur reynst skólastarfinu í bænum afar vel. Verkfærakistan er hagnýtt námskeið fyrir kennara og annað fagfólk. Þar er unnið að því að efla samskiptafærni nemenda, auðvelda starfsmönum að koma auga á börn í félagslegum vanda og beita árangursríkum aðferðir til að vinna með þeim. Þá hefur hinseginfræðsla Samtakanna 78 mælst afar vel fyrir í skólunum okkar. Í ár munu nemendur í þriðja, sjötta og níunda bekk njóta fræðslu frá þeim.

Endurbætur á skólum

Skólastarf Garðabæjar raskaðist talsvert á síðasta skólaári vegna aðkallandi framkvæmda í Álftanesskóla, Flataskóla, Garðaskóla og Hofsstaðaskóla. Starfsfólk, nemendur og foreldrar eiga mikla þakkir skildar fyrir þolinmæði og þrautseigju sína á síðasta skólaári. Staðan er góð eftir stormasaman vetur. Búið er að lyfta grettistaki í öllum grunnskólunum enda  hafa framkvæmdir gengið vel í sumar.

Í öllum skólunum er búið að hreinsa út rakaskemmt efni og unnið hörðum höndum að því að klára kennslustofur. Það er ljóst að framkvæmdir verða í hluta af húsnæði skólanna fyrstu vikurnar en  lögð verður áhersla á að takmarka ryk og rask. Framkvæmdum verður lokið fyrir upphaf skólaársins í Álftanesskóla. Framkvæmdir hafa gengið vel í Garðaskóla og er stefnt að því að allar kennslustofur verði klárar þegar skólastarf hefst. Talsverð nemendaaukning verður í Garðaskóla og því er nú unnið að því að bæta færanlegum kennslustofum við skólann sem verða tilbúnar í lok næsta mánaðar. Í Hofsstaðaskóla mun framkvæmdum verða lokið í september. Í Flataskóla verða kennslustofur klárar við skólabyrjun, að undanskildum heimilisfræðistofu og smíðastofu. Framkvæmdir verða áfram á sal skólans, en vonir standa til að þeim verði lokið fljótlega eftir að skólastarf hefst og hann verður að hluta til tilbúinn.  Framkvæmdir eru á góðri siglingu við 2. áfanga Urriðaholtsskóla eftir frostamikinn vetur. Í septemberlok er von á fjórum kennslustofum og hreyfirými við skólann. Í nýjum áfanga eru heimasvæði og list- og verkgreinastofur.

Skólabarnið í forgang!

Setjum skólabarnið okkar í fyrsta sæti  – sér í lagi næstu vikurnar. Sköpum gleði og festu í kringum skólabyrjun og tryggjum þannig að það sé skemmtilegt að byrja í skólanum að loknu sumarfríi.

Sigríður Hulda Jónsdóttir, formaður skólanefndar grunnskóla Garðabæjar og forseti bæjarstjórnar

Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum, 24.ágúst 2023.