Skipulag á Álftanesi – lágreist byggð með áherslu á sveit í borg

Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir skrifar:

Vilji meirihlutans í Garðabæ er að viðhalda sveitarfélaginu á Álftanesi sem sveit í borg með hóflegri uppbyggingu til að koma til móts við íbúa, bæði þeirra sem hérna búa en líka þeirra sem hingað vilja flytja. Við munum vinna endanlega tillögu í sátt og samvinnu við íbúana.

Á því kjörtímabili sem senn fer ljúka hefur undirrituð lagt ríka áherslu í skipulagsnefnd á að varðveita þessa miklu perlu sem við sem hérna búum þekkjum. Fyrir stuttu var haldinn íbúafundur þar sem tillaga um nýtt deiliskipulag var forkynnt sem þýðir að við erum að kalla eftir ábendingum íbúa hvað betur má fara. Það kallast íbúalýðræði sem við í meirihlutanum höfum lagt mikla áherslu á enda haldið 37 slíka fundi í tengslum við ýmis mál á þessu kjörtímabili. Deiliskipulagstillagan byggir á vinningstillögu frá síðasta ári sem hefur tekið þó nokkrum breytingum frá upphafi. Tillagan sem var kynnt kemur frá skipulagshönnuði sem við í skipulagsnefnd komum svo áfram til íbúa með opnum fundi til að kalla eftir ábendingum frá íbúum. Þetta er ákveðið skipulagsferli til að ná sameiginlegri og hagkvæmri lausn fyrir íbúa sveitarfélagsins.

Við erum ekki að tala um óskipulagt svæði. Fyrir liggur deiliskipulag sem samþykkt var á fundi bæjarstjórnar þann 26. júní árið 2008 af bæjarfulltrúum Álftaneslistans (hægt er að skoðað tillöguna á http://www.álftanes.is/Files/Skra_0023357.pdf og samþykkt deiliskipulag á vefsjá Skipulagsstofnunar skipulag.is). Sjálfstæðismenn í bæjarstjórn undanfarið kjörtímabil hafa lagt áherslu á varðveita gæði svæða með hóflegri uppbyggingu en á sama tíma hefur minnihlutinn sem nú býður fram undir merkjum Garðabæjarlistans lagt áherslu á þéttingu byggðar.

Byggðin á Álftanesi er sérstök, umhverfið hérna einstakt og það ber að viðhalda. Vonandi fáum við Sjálfstæðismenn tækifæri til að vinna áfram með íbúum að glæsilegri lágreistri byggð undir formerkjum sveit í borg og veitum þannig fólki ungum sem öldnum sem hérna vill búa tækifæri til þess án þess að skerða þá perlu sem fyrir er.

Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir, Skipulagsfræðingur og íbúi á Álftanesi

Skipar 16. sætið á lista Sjálfstæðisflokks Garðabæjar