Sjálfstæðisfélag Garðabæjar var stofnað 3. júní 1959 og fagnar því 60 ára afmæli í dag. Stofnfélagar voru 124. Frá upphafi hefur markmið félagsins verið að berjast fyrir þjóðlegri og víðsýnni framfarastefnu með hagsmuni allra að leiðarljósi. Grundvöllur stefnunnar er frelsi, sjálfstæði þjóðar og einstaklings ásamt jöfnun rétti allra þjóðfélagsþegna.

Sjálfstæðisflokkurinn bauð fyrst fram í sveitarstjórnarkosningum í Garðahreppi árið 1966 og hlaut meirihluta atkvæða. Síðan þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið óslitið í meirihluta í sveitarstjórn Garðahrepps og síðar Garðabæjar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið traust kjölfesta í rekstri sveitarfélagsins sem sést á þeim árangri sem Garðabær hefur náð.

Kynjahlutföllin jafnast
Fyrsti formaður Sjálfstæðisfélags Garðabæjar var Jóhann Eyjólfsson heitinn. Frá stofnun félagsins hafa þrjátíu formenn verið yfir félaginu og tugir manna setið í stjórninni. Ef horft er til kynjahlutfalla þá hafa tuttugu og þrír karlar og sjö konur gegnt formennsku. Fyrsta konan til að gegna formennsku var Ólöf Sigurðardóttir heitin sem kosin var formaður árið 1993. Síðustu tuttugu árin hafa kynjahlutföllin jafnast því á þeim tíma hafa sex konur gegnt formennsku og fjórir karlar. Það er fagnaðarefni.

Öflugt félagsstarf
Sjálfstæðisfélagið í Garðabæ hefur ávallt staðið fyrir öflugu félagsstarfi. Félagið hefur verið ötult við að halda fundi þar sem íbúum Garðabæjar gefst tækifæri til að hlýða á áherslur kjörinna fulltrúa og koma sínum ábendingum á framfæri. Í haust réðst stjórn félagsins í miklar endurbætur á félagsheimilinu á Garðatorgi. Veggir voru teknir niður og rýmið með þeim hætti opnað, skipt var um gólfefni, húsnæðið var málað og fleira mætti nefna. Félagsheimilið nýtist nú enn betur fyrir félagsstarfið og er mikil ánægja meðal félagsmanna með endurbæturnar.
Í vetur hefur félagið staðið fyrir fundum þar sem fjölbreytt málefni hafa verið tekin fyrir með ráðherrum, þingmönnum, kjörnum bæjarfulltrúum og öðrum. Auk þess að halda laugardagsfundi eins og gert hefur verið undanfarin ár, ákvað stjórnin að bjóða upp á fundi á þriðjudagskvöldum kl. 18.30. Með þessum fundartíma vildi stjórnin ná til yngra fólks. Fundirnir hafa fengið jákvæðar viðtökur og hafa málefni bæjarfélagsins verið í brennidepli. Ánægjulegt hefur verið að sjá fólk á ólíkum aldri koma og taka þátt í málefnalegum umræðum. Bæjarfulltrúar flokksins hafa verið kappsamir við að mæta á fundina og hafa gagnlegar umræður átt sér stað. Auk laugardags- og þriðjudagsfunda hefur félagið staðið fyrir vinsælum viðburðum. Má þar nefna hið rómaða jólakakó í upphafi aðventunnar og hina árlegu páskaeggjaleit þar sem fjölskyldur fjölmenna og eiga saman gleðiríkar stundir.

Þakkir til félagsmanna, afmælishátíð á fimmtudag
Fyrir hönd stjórnar Sjálfstæðisfélagsins vil ég þakka öllu því góða fólki sem lagt hefur sitt af mörkum fyrir félagið og félagsmönnum öllum fyrir þeirra þátttöku í þau 60 ár sem félagið hefur verið starfrækt. Haldið verður upp á afmæli félagsins fimmtudaginn 6. júní nk. kl. 17.30 í félagsheimilinu að Garðatorgi 7. Þangað er öllum boðið.
Sjálfstæðisfélag Garðabæjar mun hér eftir sem hingað til bjóða upp á metnarfullt félagsstarf og vera vettvangur fyrir uppbyggileg skoðanaskipti meðal íbúa Garðabæjar og kjörinna fulltrúa og stuðla áfram að jákvæðum framförum í hina sterka sveitarfélagi sem Garðabærinn er.

Sigþrúður Ármann, formaður Sjálfstæðisfélagsins í Garðabæ.