Inn í grunnskóla Garðabæjar trítla nú rúmlega 2600 skólabörn, sum hver eru að hefja nám í fyrsta skiptið, önnur að koma inn á unglingastigið og einhver að ganga inní nýjan skóla. Önnur þekkja skólann sinn vel og horfast í augu við nýtt ár fullt af tækifærum.
Jákvætt skólaumhverfi
Í Garðabæ búum við svo vel að geta boðið upp á öflugt skólasamfélag, þar sem kennarar, stjórnendur og annað starfsfólk leggja sig fram með fagmennsku og hlýju til að stuðla að farsæld nemenda. Í Garðabæ leggjum við ríka áherslu á að skólastarfið sé uppbyggjandi og hvetjandi. Við viljum að börnin finni að þau séu í öruggu og jákvæðu umhverfi.
Samspil heimilis og skóla
Samstarf heimilis og skóla er lykillinn að góðum árangri og við fullorðna fólkið þurfum að vera virk í baklandi barna okkar. Þegar foreldrar ræða á jákvæðan hátt um skólastarfið, hrósa starfsfólki og nemendum fyrir vel unnin verk og tala við kennara eða stjórnendur á lausnamiðaðan um það sem betur má fara stuðlar það að heilbrigðu skólastarfi í sífelldri þróun.
Skólinn er vinnustaður barnanna okkar. Þar læra þau, vaxa og dafna. Það er því auðvitað mikilvægt að barnið hlakki til þess að mæta í skólanum, því líði vel í skólanum og frístundastarfi og rútínan heima styðji við vellíðan barnsins í skólanum. Mikilvægt er að virða vinnutíma skólanna og stilla frítíma barnanna í takt við skólafrí. Ég hvet foreldra og forráðamenn til að stuðla að vellíðan barna sinna með því að fylgjast vel með líðan þeirra, koma á skipulagi heimanáms, takmarka tíma í snjalltækjum, kynnast vinum barnanna og jafnvel foreldrum þeirra, huga að hvíldartíma og samveru fjölskyldunnar.
Fræðsludagar
Í upphafi skólaársins fóru fram fræðsludagar hjá starfsfólki þar sem áhersla var lögð á fagþróun með skapandi hætti. Kennarar fengu tækifæri til að auka þekkingu sína á netöryggi og skjátíma barna, læra nýjungar í Google-kennsluumhverfi, farið var yfir hvernig spil og leikir geta styrkt bæði nám og félagsfærni, kenningar um lesskilning ásamt verkefnum í samstarfi við Háskóla Íslands. Þessi vinna eflir fagmennsku og ýtir undir fjölbreytt, öruggt og skapandi umhverfi fyrir nemendur.
Samskiptasáttmáli
Samskiptasáttmáli Garðabæjar er að festa sig í sessi sem viðmið í öllu skólastarfi Garðabæjar. Hann var innleiddur fyrir ári síðan. Samskiptasáttmálinn byggir á markvissri þjálfun allra nemenda í góðum samskiptum. Leiðarljós samskiptasáttmála Garðabæjar er að auka vellíðan, félagsþroska, lífsgæði og heilsu barna. Með sameiginlegri þjálfun, skilningi og markvissum aðferðum stuðlum við jákvæðum samskiptum, vellíðan og vináttu í námi og leik. Mikilvægt er að allir viti hvernig þeir eiga að bregðast við erfiðum samskiptum, hvert þeir geti leitað og hvernig unnið er úr málunum.
Stuðningur
Í skólabyrjun felast ýmis tækifæri og áskoranir. Styðjum vel við börnin okkar, á heimilinu sem foreldrar og ættingjar, í skólunum sem fagmenn og umsjónaraðilar og í tómstundunum sem þjálfarar og ábyrgðaraðilar. Garðabær er bær þar sem bæjarbúar láta sér annt hver um annan – látum okkur einkum annt um unga fólkið okkar sem þarf stuðning og jákvæða athygli.
Sigríður Hulda Jónsdóttir formaður skólanefndar og bæjarfulltrúi
Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum, 29. ágúst 2025.
