Kæru Garðbæingar,
Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 6. sætið í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins sem fer fram 5. mars næstkomandi.
Ég er fædd og uppalin hér í bænum, í dag bý ég ásamt dóttur minni í Akrahverfinu í Garðabæ. Foreldrar mínir búa einnig í bænum og ég er svo heppin að eiga ömmu og afa sem búa hér líka. Sannkallaður fjölskyldubær. Ég er með BS-próf í viðskiptafræði og MS-próf í hagfræði auk þess hef ég lokið prófi í verðbréfamiðlun. Í dag starfa ég sem sérfræðingur hjá Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins ásamt því að vera hóptímakennari í World Class. Samhliða starfinu hef ég haldið kynningar á lífeyrisréttindum fyrir sjóðfélaga LSR ásamt því að vera fulltrúi á vegum Fjármálavits sem er í eigu Samtaka fjármálafyrirtækja.
Skólaganga mín hófst í Hofsstaðaskóla, fór síðan í Garðaskóla og þaðan í Fjölbrautaskólann í Garðabæ. Þar var ég gjaldkeri nemendafélagsins, sat einnig í skólaráði og tók m.a. þátt í uppsetningu á söngleikjum skólans. Samhliða námi á yngri árum lærði ég á hljóðfæri í Tónlistarskóla Garðabæjar auk þess sem ég stundaði íþróttir í Stjörnunni af kappi. Ég æfði handbolta í Stjörnunni til margra ára og spilaði þar með meistaraflokki kvenna en einnig þjálfaði ég yngri flokka þar í nokkur ár. Enn í dag tek ég virkan þátt í starfi félagsins, ég spila handbolta í Utandeildinni, hef verið þulur á leikjum hjá stelpunum og tekið þátt í skipulagningu á Kvennakvöldi Stjörnunnar.
Fyrir mér er Garðabær heillandi bæjarfélag og hefur alla möguleika til þess að vera áfram í forystu fyrir fjölskyldur. Garðabær á að vera með framúrskarandi leik- og grunnskóla ásamt aðlaðandi starfsumhverfi fyrir fyrirtækin í bænum. Mikilvægt er að áfram sé haldið vel utan um íþrótta- og tómstundamál í bænum. Frekari uppbygging stíga og útivistarsvæða í upplandi Garðabæjar er spennandi verkefni sem vinna þarf að í sátt við náttúruna á svæðinu. Saman eigum við að huga að stækkandi bæjarfélagi og hlúa vel að grunnþjónustu bæjarins.
Allir sem þekkja mig vita að ég er stoltur Garðbæingur og ég tel nauðsynlegt að ungt fólk taki þátt í að skapa farsælt bæjarfélag.
Með ánægju og stolti býð ég mig fram á lista Sjálfstæðisflokksins og óska ég eftir 6. sæti.
Áfram Garðabær!