Höldum vel um fólkið okkar

Gunnar Einarsson skrifar:

Á síðasta ári voru útgjöld Garðabæjar til fjölskyldusviðs 12,8% af heildarútgjöldum og er nú um að ræða annan stærsta útgjaldalið bæjarins en fjölskyldusvið fer með framkvæmd þeirra mála er lúta að félagslegri þjónustu bæjarins, barnavernd og jafnréttismálum. Stærsti útgjaldaliðurinn hjá Garðabæ fer til fræðslu- og uppeldismála eða um 53% en þriðji stærsti útgjaldaliðurinn á síðasta ári fór til æskulýðs- og íþróttamála (12,3%) Oft er hægt að greina áherslumál út frá stærstu útgjaldaliðum og í tilviki Garðabæjar eru þrír stærstu útgjaldaliðirnir allt mikilvægir þættir þegar kemur að því að halda samfélaginu okkar í forystu.

Stuðningur til sjálfshjálpar

Við viljum halda vel utan um allt fólkið okkar sem býr í bænum og styðja við einstaklinga sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda til virkni og sjálfshjálpar. Hverju og einu sveitarfélag setur sínar eigin reglur um fjárhagsaðstoð og eru upphæðir mjög mismunandi. Garðabær veitir fjárhagsaðstoð til framfærslu einstaklinga og fjölskyldna sem ekki geta séð sér og sínum farborða án aðstoðar. Grunnfjárhæð til einstaklings er að hámarki 185 þúsund krónur á mánuði og er það hærri upphæð en  t.d. í Kópavogi, Hafnarfirði, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi.  Á síðasta ári fengu 106 einstaklingar/fjölskyldur fjárhagsaðstoð í Garðabæ.

Nýjar reglur um sérstakan húsnæðisstuðning  sem samþykktar voru fyrir áramót gefa þeim einstaklingum sem eiga rétt á almennum húsnæðisbótum ríkisins jafnframt rétt á sérstökum húsnæðisstuðningi frá Garðabæ.

Félagslegt húsnæði – nýr búsetukjarni fyrir fatlað fólk

Garðabær á 29 félagslegar íbúðir, þar af var ein keypt síðasta haust og ein í vor. Um síðustu áramót voru 23 aðilar á biðlista eftir almennu félagslegu húsnæði. Umsækjendum er forgangsraðað á listann eftir aðstæðum svo að þeir sem eru í mestri neyð, fái fyrst aðstoð.

Kapp er lagt á að stytta biðtíma eins og kostur er. Í því samhengi má nefna að í Reykjavík þarf íbúi að hafa verið með skráð lögheimili í borginni í þrjú ár áður en hann getur sótt um félagslega íbúð. Í Garðabæ er þessi tími einungis eitt ár og þar með styttist biðtíminn töluvert.

Þrátt fyrir að Garðabær skori hátt þegar kemur að ánægju íbúa með þjónustu er alltaf hægt að gera betur. Síðustu ár hefur Garðabær boðið upp á notendastýrða persónulegra aðstoð (NPA) til reynslu til samræmis við framtíðarsýn í þjónustu við fatlað fólk. Nú eru sex slíkir samningar í gildi, verkefnið hefur gengið vel og þeir sem njóta þjónustunnar eru ánægðir með þessa breytingu.

Þá er nú í byggingu búsetukjarni fyrir fatlað fólk við Unnargrund í Garðabæ og er gert ráð fyrir að fyrstu íbúar flytji inn vorið 2019. Þannig mun á næsta kjörtímabili verða fjölgun á félagslegum búsetuúrræðum í Garðabæ. Mikilvægt er að stuðla að virkni fatlaðs fólks og þeirra sem þurfa á aðstoð að halda m.a. í fjölbreyttu íþrótta-, tómstunda- og félagsstarfi.  Áfram munum við leggja áherslu á að standa vörð um hagsmuni barna og ungmenna m.a. þannig að enginn þurfi að hverfa frá þátttöku í íþrótta- og tómstundastarfi og að ungmenni sem hvorki eru í námi né vinnu hafi kost á sjálfseflandi úrræðum á vegum sveitarfélagsins s.s. Fjölsmiðjunni.

Mín ósk er sú að okkur öllum hér í Garðabæ líði vel og hægt sé eftir fremsta megni að koma til móts við mismunandi þarfir bæjarbúa. Við sjáum um okkar fólk og viljum að íbúar Garðabæjar geti verið stoltir af því að vera Garðbæingar.

Gunnar Einarsson, Bæjarstjóri Garðabæjar