Góð þjónusta en rými til umbóta

Það er afskaplega gleðilegt að geta sagt frá því að þjónusta Garðabæjar er heilt yfir álitin mjög góð. Íbúar gefa okkur góðan vitnisburð í nýrri könnun Gallup fyrir árið 2023 og fyrir það erum við öll þakklát. Garðabær er á langflestum sviðum meðal efstu sveitarfélaga og við erum það sveitarfélag þar sem heildaránægja með þjónustuna mælist hæst. Í þessari könnun breytist staðan þó frá síðasta ári, en ánægja mælist minni á nokkrum sviðum þótt við höldum okkar góðu stöðu. Við sjáum að þær áskoranir sem við höfum staðið frammi fyrir undanfarið hafa áhrif á það hvernig íbúar upplifa þjónustuna. Það eru mikilvæg skilaboð.

Markmið könnunarinnar er að kanna ánægju með þjónustu 20 stærstu sveitarfélaga landsins og gera samanburð á þeim ásamt því að skoða breytingar frá fyrri mælingum. Af niðurstöðum sést vel að þau sem hafa nýtt sér þjónustu bæjarins segjast vera ánægðari heldur en þau sem ekki hafa nýtt hana. Það er ánægjulegt, enda skiptir upplifun notenda öllu máli.

Við erum vaxandi samfélag sem hefur ýmsa góða kosti en gerir þjónustukröfuna sterkari. Við höfum verið að glíma við rakaskemmdir í skólahúsnæði og okkur gengur vel á þeirri vegferð. Við höfum einnig unnið að umbótum á leikskólaþjónustunni og munum sjá árangur af þeirri vinnu á næstu mánuðum. Eftir íþróttaleiki er oft sagt: „Við eigum nóg inni.“ Ég held að við séum einmitt þar, nú skoðum við vel hvernig Garðabær getur haldið áfram að bæta þjónustuna enn frekar.

Við búum að metnaðarfullu skólastarfi á öllum stigum og tilhlökkun okkar er mikil gagnvart því að opna nýja leikskólann okkar Urriðaból á næstu vikum og að taka í notkun annan áfanga Urriðaholtsskóla. Við vitum líka að tilkoma búsetukjarna fyrir fatlað fólk í Brekkuási og Vinagarðs í Urriðaholti voru mikilvæg og kærkomin skref.

Eitt af því sem mér finnst dýrmætt er náið samstarf og samtal milli Garðabæjar og íbúanna hér í bænum. Ég tel að boðleiðirnar séu með stysta móti og að við getum brugðist við hratt og örugglega. Von mín er sú að íbúar Garðabæjar upplifi það einnig.

Ég legg mikið upp úr þessu samtali og á næstu vikum ætla ég að færa skrifborðið mitt úr ráðhúsinu í hverfi bæjarins. Mig langar að hvetja ykkur til að kíkja á mig,  ræða það sem er gott og það sem má gera betur. Það hjálpar okkur að stilla fókusinn og bæta þjónustuna enn frekar.

Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar og oddviti Sjálfstæðisflokksins.

Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum, 15.febrúar 2024.