Forvarnavika Garðabæjar verður haldin í áttunda sinn dagana 4.-11. október 2023. Markmið forvarnavikunnar er að vekja athygli á mikilvægum og fjölbreyttum þáttum í forvarnarstarfi. Garðabær vill með forvarnavikunni styrkja og efla forvarnir í bænum, auka fræðslu, þekkingu og vitund Garðbæinga um lýðheilsu, samfélagið og nauðsynlegar forvarnir á ýmsum sviðum. Með víðtækri þátttöku í forvarnavikunni nýtum við þau sóknarfæri að gera vel í forvarnarmálum og stuðlum að heilbrigði Garðbæinga á öllum aldri á markvissan hátt.
Víðtæk samvinna samfélagsins
Forvarnavikan er verkefni sem hófst í grunnskólum bæjarins árið 2016. Verkefnið hefur vaxið að umfangi með ári hverju en strax á öðru ári bættust leikskólarnir við. Í kjölfarið fylgdu ýmsar stofnanir og félög í bænum og fyrir nokkrum árum var sérstaklega leitað til eldri borgara og ungmennaráðs í því skyni að sem flestar raddir heyrðust í forvarnavikunni.
Það er að mínu áliti afskaplega mikilvægt að samfélagið allt komi að forvarnarmálum enda varða forvarnir bæjarbúa alla og verða þeim mun áhrifameiri ef allt samfélagið tekur höndum saman og vinnur að þeim sem ein heild. Höfum það hugfast, að þó forvarnavikan sé árlegt átaksverkefni, sem sett er af stað í því skyni að vekja vitund og efla fræðslu, að þá eru forvarnir viðfangsefni allra á hverjum einasta degi allt árið um kring.
Samskipti – góð samskipti – gott samfélag
Þema forvarnavikunnar í ár eru samskipti. Í vikunni ætlum við að skoða samskiptin okkar með fjölskyldum, skólum og íþróttafélögum. Við ætlum að velta fyrir okkur og reyna að svara því hvernig við tökumst á við ágreining, hvernig við eigum í jákvæðum samskiptum og hvernig við sköpum gott samfélag. Við berum öll ábyrgð á að eiga í góðum samskiptum, bæði ég og þú, sama hvaða hlutverki við gegnum, sem foreldrar, þjálfarar, iðkendur, kennarar, nemendur og manneskjur í samfélaginu okkar. Þema forvarnavikunnar árið 2023 er valið í þeirri trú að með góðum og jákvæðum samskiptum sem byggð eru á umburðarlyndi sköpum við gott samfélag þar sem einstaklingar vaxa og dafna á hverjum degi.
Í leikskólum bæjarins verður fjallað um samskipti barna við fullorðna. Í grunnskólunum verður kennsluefni frá KVAN nýtt til að þjálfa nemendur og starfsfólk í bættum samskiptum, en fjallað verður um hvernig tekist er á við ágreining, hvernig hægt er að eiga jákvæð samskipti og byggja upp gott skólasamfélag. Íþrótta- og tómstundaráð Garðabæjar beinir því til íþróttafélaga og annarra frjálsra félaga í bænum að leggja áherslu á að bæta samskipti til að bæta líðan einstaklinga sem koma að starfinu, bæði þjálfara og iðkenda.
Tökum þátt – vinnum saman að heilbrigðu samfélagi!
Fyrir hönd íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar vil ég hvetja alla bæjarbúa til að vinna saman að heilbrigðu samfélagi. Hugum sérstaklega að daglegum samskiptum í lífi okkar, sköpum traust manna í millum og treystum þannig forvarnir í lífi barnanna okkar. Dagskrá forvarnaviku Garðabæjar má finna á vef bæjarins, gardabaer.is, og einnig má sjá upplýsingar á vefjum skólanna. Ég vil þakka sérstaklega þeim fjölmörgu aðilum sem hafa lagt sig fram við að undirbúa áhugaverða, fræðandi og skemmtilega dagskrá fyrir forvarnavikuna okkar árið 2023.
Hrannar Bragi Eyjólfsson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs.
Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum 4.október 2023