Garðabær í forystu í fjármálum

Garðabær í forystu í fjármálum

Ég er einn af þeim sem hefur mikinn áhuga á fjármálum og rekstri. Sumir vinir mínir brosa að mér fyrir það og segja að það geti nú ekki verið mikið fjör eða gleði í því að liggja yfir talnaverkinu. Ég get allavega huggað mig við að fjármál skipta miklu máli. Traust, sjálfbær og ábyrg staða í fjármálum er eftirsóknarverð alls staðar og gildir þá einu um hvort um er að ræða ríki, sveitarfélög, fyrirtæki eða heimili.

Sterk fjárhagsleg staða

Garðabær hefur allnokkra sérstöðu hvað varðar sterka fjárhagslega stöðu sveitarfélaga en á sama tíma er þjónustan öflug. Þetta skiptir máli. Afkoma bæjarsjóðs á síðasta ári var jákvæð um 1,1 milljarð króna og staðan er sterk á alla mælikvarða. Skuldahlutfall er 85% og hefur farið lækkandi á undanförnum árum. Það er til marks um góða stöðu að á sama tíma og skuldir vaxa ekki er unnt að fjárfesta fyrir tæpa 3 milljarða króna sem er met.

Ársskýrsla eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga sem gefin var út í desember 2017 gefur góða mynd af stöðu Garðabæjar í samanburði við önnur sveitarfélög í landinu sem eru á meðal þeirra 10 stærstu (tölur um rekstur 2016). Þar má sjá að rekstrarniðurstaða Garðabæjar sem hlutfall af tekjum var 12% en meðaltal hinna sveitarfélaganna var 6%. Veltufé frá rekstri sem hlutfall af tekjum var 21% í Garðabæ en 16% að meðaltali í samanburðarsveitarfélögum. Þá var skuldahlutfall samanburðarsveitarfélaganna (150%) að jafnaði nærri tvöfalt hærra en í Garðabæ (79%). Með öðrum orðum,Garðabær er í forystu meðal stærri sveitarfélaga landsinsþegar kemur að fjármálum.

Lágar álögur

Það er mikilvægt að átta sig á hverju þessi staða skilar. Álögur á bæjarbúa eru með því lægsta sem gerist meðal sveitarfélaga. Þjónusta er góð og framkvæmdir meiri en víðast hvar. Tekjur bæjarins skila sér beint í þjónustu, enda eru vaxtagjöld ekki fjárfrekur útgjaldaliður. Að auki hefur verið hægt að fjármagna framkvæmdir í miklum mæli úr rekstri bæjarfélagsins án lántöku. Þetta er eftirsóknarverð staða og langt því frá sjálfgefin á Íslandi í dag.

Um áratugaskeið hefur Garðabær verið í forystu hvað þessi mál varðar. Ábyrg fjármálastjórn er einn af hornsteinum stefnu núverandi meirihluta í bæjarstjórn og við viljum sækja umboð bæjarbúa til að halda áfram á þeirri braut. Farsæl fjármálastjórn er góður grunnur að öflugri þjónustu, ánægju íbúa og kraftmikilli uppbyggingu. Það skiptir máli að Garðabær sé í forystu í fjármálum.

Almar Guðmundsson, bæjarfulltrúi, hagfræðingur. Skipar 6. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins