Garðabær fyrsta sveitarfélagið til að tekjutengja hvatapeninga

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti fyrir áramót tillögur íþrótta- og tómstundaráðs um tekjutengingu hvatapeninga fyrir börn og ungmenni í bænum. Öll börn á aldrinum 5-18 ára, með lögheimili í Garðabæ, þ.e. börn fædd á árunum 2006-2019, geta fengið greiðslu hvatapeninga árið 2024 til niðurgreiðslu á æfinga- og námskeiðagjöldum í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi.

Fjárhæð hvatapeninga og skilyrði tekjutengingar

Fjárhæð hvatapeninga árið 2024 verður óbreytt, þ.e. 55.000 kr., en nýjar reglur kveða á um að fjölskyldur sem eru undir skilgreindum viðmiðunartekjum öðlist rétt á 15.000 kr. viðbótargreiðslu hvatapeninga eða 70.000 kr. heildargreiðslu á hvert barn í þeirra forsjá.

Hægt er að sækja um viðbótarhvatapeninga í þjónustugátt Garðabæjar ef heildartekjur heimilis eru að meðaltali lægri en 800.000 kr. á mánuði hjá einstaklingi eða 980.000 kr. hjá sambýlisfólki m.v. launavísitölu 1. janúar 2024. Miðað er við staðgreiðsluskrá fyrir síðustu þrjá mánuði þegar umsókn er send inn. Nánari upplýsingar má finna á vef Garðabæjar, www.gardabaer.is.

Hvað er hægt að nýta hvatapeninga í?

Hægt er að nýta hvatapeninga til að lækka kostnað við skipulagt íþrótta- og tómstundastarf sem nær yfir 10 vikur að lágmarki. Undantekning eru 5 og 6 ára börn þar sem lágmarkstímalengd námskeiða eru 20 kennslustundir óháð vikufjölda. Hægt er að ráðstafa hvatapeningum bæði til félaga innan Garðabæjar sem og í öðrum sveitarfélögum.

Ungmenni í þremur elstu árgöngunum, þ.e. þau sem eru fædd 2006, 2007 og 2008, geta fengið hvatapeninga greidda vegna kaupa á korti í líkamsræktarstöð. Þá er hægt að nýta hvatapeninga til að greiða niður tónlistarnám, bæði í Tónlistarskóla Garðabæjar sem og í öðrum tónlistarskólum.

Ef félag sem barn eða ungmenni iðkar íþróttir eða tómstundir hjá er tengt Sportabler eða XPS skráningarkerfinu er hægt að nýta hvatapeninga beint í gegnum kerfin. Nánari upplýsingar um hvernig sótt er um hvatapeninga má finna á vef Garðabæjar.

Garðabær fyrsta sveitarfélagið til að innleiða hvatapeninga

Árið 2005 var Garðabær fyrsta sveitarfélagið til að innleiða svokallaða hvatapeninga en um var að ræða beinan fjárhagslegan styrk til niðurgreiðslu á æfingagjöldum. Styrkurinn var kallaður „hvatapeningar“ enda megin tilgangurinn að hvetja ungmenni til þátttöku í skipulögðu íþróttastarfi. Um ákveðna upphæð var að ræða sem veitt var árlega. Fljótlega var styrkveitingin útvíkkuð og hún látin ná til hvers konar tómstundaiðkunar sem greiða þurfti fyrir. Seinna meir bættist tónlistarnám við. Með innleiðingu hvatapeninga var stuðlað að valfrelsi og jafnrétti á sviði íþrótta- og æskulýðsmála í Garðabæ. Þannig var greiðsla hvatapeninga ekki bundin við tiltekið félag og ekki heldur við íþróttastarfsemi í Garðabæ. Svo er enn í dag.

Hvatapeningakerfið hefur reynst vel

Þetta framtak Garðabæjar vakti töluverða athygli sem varð til þess að fleiri sveitarfélög tóku upp svipað kerfi um styrkveitingar frístundastyrks, eins og hann er víða kallaður. Þetta kerfi hefur reynst vel. Bæði hefur það hvatt og aukið þátttöku ungmenna í hollu og skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, en um leið hefur það styrkt íþrótta- og tómstundafélög og rennt styrkari stoðum undir starfsemi þeirra. Þannig hafa félögin getað innheimt æfingagjöld sem leiðir til þess að þau geta ráðið vel menntaða og hæfa þjálfara og leiðbeinendur. Hvatapeningakerfi Garðabæjar hefur verið við lýði í 19 ár og hefur góð reynsla fengist með því. Það er mikilvægur liður í umhverfi íþrótta- og æskulýðsmála í bænum en þróun þess er sífellt til umræðu.

Garðabær fyrsta sveitarfélagið til að tekjutengja hvatapeninga

Enn stígum við ný skref í Garðabæ. Íþrótta- og tómstundaráð vann að og undirbjó tillögu að þeirri nýbreytni að tekjutengja hvatapeninga með það að augnamiði að skapa umhverfi í hvatapeningakerfinu sem veiti jöfn tækifæri fyrir hvert barn í bænum óháð félags- eða fjárhagslegri stöðu foreldra.

Markmið hvatapeninga er að hvetja börn og ungmenni til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi, en rannsóknir hafa sýnt fram á að forvarnargildi hvatapeninga er ótvírætt. Niðurstöður rannsókna sýna að þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi undir leiðsögn faglegra leiðbeinenda hefur jákvæð áhrif á líðan barna og ungmenna og dregur úr áhættuhegðun eins og áfengisneyslu, reykingum og neyslu óæskilegra efna.

Leggjum grunn að heilbrigðu lífi barna og ungmenna – veitum jöfn tækifæri

Það er því mikils um vert að hvatapeningakerfi Garðabæjar sé þannig úr garði gert að það hvetji sem flest börn og ungmenni til þátttöku í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi. Markmiðið er að stuðla að jöfnum tækifærum barna og ungmenna í bænum. Það leggur grunn að heilbrigðu lífi barna og ungmenna sem leiðir að góðu og heilbrigðu samfélagi í Garðabæ.

Með þetta að markmiði samþykkti bæjarstjórn Garðabæjar tillögu íþrótta- og tómstundaráðs um tekjutengingu hvatapeninga árið 2024.

Hrannar Bragi Eyjólfsson, bæjarfulltrúi og formaður íþrótta- og tómstundaráðs.

Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum, 1.febrúar 2024.