Almar Guðmundsson ráðinn bæjarstjóri Garðabæjar

Almar Guðmundsson er nýr bæjarstjóri Garðabæjar. Hann tekur við starfinu af Gunnari Einarssyni sem nú lætur af störfum eftir 17 ára starf.

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti ráðningu Almars á fyrsta fundi nýrrar bæjarstjórnar þann 2.júní. Sigríður Hulda Jónsdóttir verður forseti bæjarstjórnar og Björg Fenger formaður bæjarráðs.

Almar er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með MBA gráðu frá London Business School. Hann hefur verið bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ frá 2014 og var oddviti flokksins í nýliðnum sveitarstjórnarkosningum.

Undanfarið ár hefur Almar starfað hjá Reiknistofu lífeyrissjóða þar sem hann leiðir vinnu við breytingar á rekstri hugbúnaðarkerfis í eigu lífeyrissjóða. Hann starfaði hjá Krít fjármögnunarlausnum og síðar hjá Kviku 2017-2020 en á árunum 2009-2017 var hann framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda og hjá Samtökum iðnaðarins. Þar áður vann hann ýmis stjórnunarstörf hjá Íslandsbanka og síðar Glitni

Almar er uppalinn Garðbæingur. Hann er kvæntur Guðrúnu Zoega, deildarstjóra á Hrafnistu Skógarbæ, og eiga þau börnin Tómas Orra, Ölmu Diljá, Fríðu Margréti, Baldur Frey og Bjarna Ragnar.