Ábyrg framtíðarsýn í umhverfismálum Garðabæjar

Guðfinnur Sigurvinsson og Jóna Sæmundsdóttir skrifa:

Garðabær hefur á kjörtímabilinu unnið að endurheimt votlendis við Bessastaðatjörn, Kasthústjörn og Urriðakotsvatn og við erum stolt af því að minnka þannig losun gróðurhúslofttegunda og auka samtímis fuglalíf og fjölbreytt lífríki í okkar einstöku náttúru. Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ vill halda áfram að endurheimta votlendi í bæjarlandinu.

Urriðaholt til eftirbreytni á heimsvísu

Urriðaholt er fyrsta hverfið á Íslandi þar sem blágrænar regnvatnslausnir voru innleiddar. Það er einnig fyrsta hverfið á þessari breiddargráðu sem býður upp á slíkar lausnir en hverfið þykir eftirbreytnivert alþjóðlegt dæmi um farsæla innleiðingu þeirra. Garðabær hefur gert samstarfssamning við Háskóla Íslands, Landbúnaðarháskóla Íslands og Háskólann í Lundi um rannsóknarverkefni þar sem markmiðið er að koma á fót rannsóknarvettvangi og byggja upp rannsóknarmiðstöð á sviði blágrænna regnvatnslausna í Urriðaholti í Garðabæ. Verkefnið styður við innleiðingu blágrænna regnvatnslausna í íslensku bæjarumhverfi.

Unnið hefur verið að því að gera útivistarstíg við Urriðavatn og lýkur þeirri framkvæmd í sumar. Gerð útivistarstígs og aukið aðgengi yfir votlendið er mikill styrkur fyrir svæðið og gerir íbúum í nærliggjandi byggð kleift að ganga hringinn í kringum Urriðavatn og umhverfi þess á öruggan hátt. Framkvæmdin hefur aukið útivistargildi svæðisins til muna en einnig verður gerð aðgengileg tenging úr Urriðaholti í friðland Heiðmerkur.

Flokkun plasts og grenndargámar

Þann 1. mars sl. hófst flokkun á plasti við öll heimili í Garðabæ. Það er von okkar að þessa aukna þjónusta gagnist íbúum vel. Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ vill vinna áfram að minnkun sorps og stuðla að meiri flokkun og við ætlum að vinna af festu gegn hvers kyns plastsóun í Garðabæ.

Friðun, útivist og göngustígar

Í Garðabæ er 40% af bæjarlandinu friðað. Strandlengja Álftanes er einstök og mikilvægt að friða hana og gera aðgengilega til útivistar. Nýir göngu- og hjólastígar hafa verið lagðir á undanförnum árum, svo sem meðfram Hafnarfjarðarvegi og fyrir neðan Vífilsstaði sem tengir byggðina við friðlandið.  Við viljum halda áfram að efla möguleika til útivistar í Garðabæ og í friðlandinu. Rannsóknir hafa sýnt að gott aðgengi að náttúru hefur mikil áhrif á lýðheilsu fólks bæði andlega og líkamlega.

Vistvænar samgöngur

Settar hafa verið upp rafhleðslustöðvar í miðbæ Garðabæjar. Á næstu mánuðum verða settar upp fleiri stöðvar svo sem við Íþróttahúsið á Álftanesi og við Ásgarð. Bætt verður við strætóskýlum og hjóla- og göngustígum og þeir gerðir öruggari.

Höfundar eru frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.