Harpa Rós Gísladóttir

Kæru Garðbæingar. Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 4.-6.sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ sem fer fram 5. mars næstkomandi.

Ég er kona á besta aldri og hef búið í Garðabæ lengstan part ævi minnar og gengið í grunn-og framhaldsskóla í bænum. Ég er gift og á fjögur börn sem hafa öll verið í leik-, grunn-og framhaldsskólum í Garðabæ. Ásamt því hef ég kennt á unglingastigi í Garðaskóla þar sem ég er með B.ED. próf frá Kennaraháskóla Íslands. Ég lauk meistaranámi í mannauðsstjórnun frá Háskóla Íslands og er ICF vottaður markþjálfi. Ég starfa sem sérfræðingur á mannauðssviði Bláa Lónsins með áherslu á fræðslumál fyrirtækisins.

Ástríða mín á íþrótta-og tómstundamálum er mikil og hef ég setið í barna-og unglingaráði knattspyrnudeildar Stjörnunnar síðastliðin 6 ár. Áður var ég mjög virk í öllu foreldrastarfi bæði í skóla og íþróttum barna minna. Aðkoma mín að sjálfboðastarfinu gaf mér þá hugmynd að mikilvægt væri að efla aðkomu kvenna í íþróttastarfi og stofnaði ásamt hópi kröftugra kvenna Stjörnukonur sem er deild innan félagsins og gegni hlutverki formanns. Markmið deildarinnar er að vera með öflugt fræðslu-og uppbyggingarstarf sem styður við barna-og unglingadeildir Stjörnunnar.

Reynsla mín og áhugi samræmist afar vel stefnu Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ. Grunnstoðirnar þurfa að vera traustar og það er mikilvægt að aðhald og skynsemi sé í rekstri með opinbert fé. Á sama tíma er fjárfestingarþörf vaxandi bæjarfélags töluverð og þar þarf að leggja áherslu á að tryggja að farið sé fram með ákveðnum hætti en um leið vera með skýra forgangsröðun hvernig má skapa enn betra samfélag.

Áherslumál mín eru iþrótta-og tómstundamál, fjölskyldumál og forvarnarstarf. Forvarnarstarf er mér afar hugleikið og ég vil leggja ríka áherslu á að Garðabær sé leiðandi þegar kemur að framboði á forvarnar-og fræðslustarfi. Ég trúi að íþrótta-og tómstundamálin séu lykillinn að góðum forvörnum. Að auki legg ég áherslu á að bæta þjónustu Heilsugæslunnar til bæjarbúa en samræma þarf þjónustuna í takt við stækkun bæjarins ásamt því að greiða aðgengi eldri borgara að Heilsugæslunni.

Garðabær er bærinn minn og mun ég leggja mitt að mörkum til að halda vel utan um þau mál sem Sjálfstæðisflokkurinn stendur vörð um og hefur gert með farsælum hætti undanfarin ár. Mikilvægt er þó að horfa til framtíðar og skoða hvað betur má fara. Ég tel mig koma með ferskan andblæ inn í bæjarpólitíkina, með heilmikla reynslu og áhuga á þeim málum sem ég vil beita mér fyrir.

Þitt atkvæði mun skipta máli og óska ég eftir stuðningi ykkar stuðningi í 4.-6. sætið.

harparg78@gmail.com
Instagram