Frá stjórn Sjálfstæðisfélagsins – félagsgjöld

Kæri félagsmaður

Sjálfstæðisfélag Garðabæjar hefur frá árinu 1959 starfað ötullega að því að vinna Sjálfstæðisstefnunni framgang í bæjarmálunum sem og landsmálunum. Félagið hefur alla tíð staðið fyrir öflugu félagsstarfi og vinsælum viðburðum í bænum. Stjórn félagsins er skipuð úrvalsfólki sem leggur til tíma sinn og krafta í sjálfboðavinnu til að efla starf félagsins, bjóða reglulega upp á samtal um málefni líðandi stundar og halda viðburði sem gagn og gaman er af.

Sjálfstæðisflokkurinn bauð fyrst fram lista í sveitastjórnarkosningum í Garðahreppi árið 1966 og hlaut meirihluta atkvæða. Síðan þá hefur flokkurinn verið óslitið í meirihluta í sveitastjórn Garðahrepps og síðar Garðabæjar. Það skiptir máli hver er við stjórnvölinn og það þekkja Garðbæingar. Garðabær er sveitarfélag í fremstu röð sem býður upp á hágæða þjónustu, ábyrgan rekstur og hefur alla tíð verið eftirsóttur staður til að búa á. Þannig viljum við að það verði áfram.

Á næstu dögum mun Sjálfstæðisfélagið senda út greiðsluseðla vegna félagsgjalda ársins. Allir skráðir flokksmenn búsettir í Garðabæ fá greiðsluseðilinn sem hljóðar upp á 6.500.- kr. en á aðalfundi félagsins í vor var gjaldið hækkað í fyrsta sinn frá árinu 2019. Greiðsluseðilinn er með rúmum eindaga og engum er skylt að greiða hann, kjósi þeir svo og auðvelt er að fela seðilinn í netbanka. Upplýsingar um skráningu í flokkinn má svo finna á Mínum Síðum á xd.is og þar má gera breytingar á aðild.

Félagsgjöldin eru þó mikilvægasti tekjuliður Sjálfstæðisfélagsins. Starfssemi félagsins hvílir á þessu framlagi félagsmanna og það er fyrir þessa fjármuni sem félagið getur haldið úti öflugu starfi, góðu samtali, frábærum viðburðum og staðið straum af stjórnmálastarfi og kosningabaráttum. Þetta síðastnefnda er mikilvægara nú en áður, enda stendur nú þegar yfir undirbúningur fyrir sveitastjórnarkosningar sem fara fram þann 16.maí n.k.

Við erum stolt af Garðabæ og þakklát fyrir að hafa fengið umboð bæjarbúa til að leiða stjórn bæjarins um áratugaskeið. Við vitum að það er ekki sjálfsagt, en við vonum að verk okkar hingað til gefi góð fyrirheit um það sem koma skal. Við hlökkum til að ganga til kosninga og vonum að félagsmenn vilji aðstoða okkur í þeirri vegferð.

Stjórn Sjálfstæðisfélags Garðabæjar