Fullt út úr dyrum á Laugardagsfundi og stjórnarslit

Laugardagsfundur Sjálfstæðisfélags Garðabæjar þann 12. október s.l. var sögulegur að mörgu leyti.

Aldrei áður hefur viðlíka fjöldi verið saman kominn í Sjálfstæðisheimilinu að Garðatorgi 7. Bæta þurfti við stólum frá nágrönnum og fjöldinn allur stóð. Gestur fundarins var Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, en mikil umræða hafði verið í stjórnmálunum vikurnar fyrir fundinn um stöðu ríkisstjórnarsamstarfsins. Á fundinn voru líka mættir aðrir ráðherrar og þingmenn til að hlýða á formanninn.

Á fundinum var Bjarni skýr. Minnsti flokkur samstarfsins gæti ekki einn staðið í vegi fyrir málum sem samið var um í stjórnarsáttmála og nauðsynlegt væri að vinna að. Þannig væri ljóst að ef breyting yrði ekki á afstöðu samstarfsflokksins væri lítið eftir nema að slíta stjórnarsamstarfinu og boða til snemmbúinna kosninga.

Rúmum sólarhring eftir fundinn boðaði Bjarni svo blaðamannafund þar sem ljóst varð að Sjálfstæðisflokkurinn hyggðist ekki starfa áfram í ríkisstjórn að svo búnu. Framvinda málsins er enn óljós en á næstu dögum mun skýrast hvenær vænta má kosninga. Það er ljóst að fram undan er snörp kosningabarátta.