Það var einstaklega ánægjulegt að ávarpa og halda utan um Menntadag Garðabæjar s.l. föstudag þar sem ríflega 450 starfsmenn leikskóla, grunnskóla og frístundar í Garðabæ komu saman í Álftanesskóla. Menntadagurinn var nú haldinn í sjötta skiptið og er orðinn árviss viðburður í skólastarfi bæjarins. Menntadagur er afrakstur Þróunarsjóða leik- og grunnskóla Garðabæjar þar sem okkar góða skólafólk hittist, þróunarverkefni eru kynnt og hlýtt á önnur erindi.
Valdefling, farsæld og tilfinningalegt öryggi barna
Nýbreytni á Menntadeginu að þessu sinni var að hefja daginn á þremur erindum í hátíðarsal Álftanesskóla og síðan skiptist hópurinn upp á smærri kynningar þróunarverkefna. Opnunar erindin héldu þær Oddný Sturludóttir og Bergdís Wilson, auk þess sem Kolbrún Þorkelsdóttir, verkefnastjóri Farsældar í Garðabæ var með stutt erindi. Oddný er aðjúnkt við Háskóla Íslands og sérfræðingur í þverfaglegu samstarfi, tómstundafræðum og menntastjórnun, erindi hennar fjallaði um valdeflingu barna. Bergdís hefur starfað í verkefnum tengdum farsæld barna í Skotlandi í 14 ár og fjallaði erindi hennar um mikilvægi þess að börn finni fyrir kærleika og tilfinningalegu öryggi allstaðar í umhverfi sínu.
Þróunarverkefni kynnt; 17 fjölbeyttar málstofur
Að fræðsluerindunum loknum gat starfsfólk valið úr sautján málstofum þar sem fjallað var um verkefni sem hlotið hafa styrk úr Þróunarsjóðum leik- og grunnskóla Garðabæjar. Markmið þróunarsjóðanna er að stuðla að framþróun og öflugu innra starfi skóla í Garðabæ. Einstaka kennarar, kennarahópar og aðrir fagaðilar sem starfa við grunnskóla í Garðabæ, einn skóli eða fleiri skólar/fagaðilar í sameiningu sem og fræðslu- og menningarsvið bæjarins í samstarfi við skóla geta sótt um styrk í þróunarsjóðina. Úthlutun úr þróunarsjóðum leik- og grunnskóla er einu sinni á ári og fjölbreytt verkefni hafa fengið styrki úr sjóðunum á liðnum árum eða allt frá árinu 2017 þegar sjóðirnir voru stofnaðir. Á málstofunum var því margt í boði en þar var meðal annars hægt var að fræðast um legó í grunnskólastarfi, lestrarverkefni, heimanámsverkefni, hvernig halda má góða stofufundi, hvernig má efla börn til að vera tæknistjórar skólanna og svo mætti lengi telja.
Skólastarf leggur grunn að velferð barna í samfélaginu
Ég er gríðarlega stolt af metnaðarfullu starfi leik- og grunnkólanna í Garðabæ. Það er mikilvægt fyrir kennara og aðra starfsmenn skólanna að fá tækifæri til að kynna þróunarverkefni sín, hlýða á fagleg erindi, hittast og deila hugmyndum og leiðum í kennsluaðferðum og nýjungum í skólastarfi. Svona dagur er dagur uppskeru, gleði og stolts. Allir vita hve mikilvægt það er að börnin fái góða og fjölþætta menntun og ekki síður að þeim líði vel í skólanum. Þróunarsjóðir leik- og grunnskóla í Garðabæ hafa undanfarin ár styrkt mörg fjölbreytt verkefni og það er einkar ánægjulegt að upplifa hvernig þessi verkefni efla skólastarfið. Við erum með flotta skóla í bænum og starfsfólk þeirra er framsækið. Kennarar og skólafólkið okkar má virkilega vera stolt af mikilvægu störfum sínum sem leggja grunninn að velferð barna í samfélaginu.
Sigríður Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar og formaður skólanefndar Garðabæjar.
Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum, 2.nóvember 2023.