Við í Garðabæ höfum lagt mikla áherslu á að börn fái boð um dvöl á leikskóla 12 mánaða þegar úthlutað er leikskólaplássum að vori. Í reglum um úthlutun um leikskóla er lögð áhersla á að systkini fari á sama skóla ef því er viðkomið. Í úthlutun þetta vorið hefur það gengið vel og stór hluti systkina hefur fengið að fylgjast að inn í sama leikskóla. Slíkt auðveldar foreldrum að koma börnum sínum í skóla og svo ekki sé talað um færri kolefnisspor í akstri.
Niðurfelling á leikskólagjöldum milli jóla- og nýárs og í páskaviku
Leikskólanefnd lagði til breytingu á gjaldskrá leikskóla fyrir tímabil milli jóla- og nýárs og í páskaviku. Tillagan felst í því að leikskólagjöld eru felld niður óski foreldrar eftir því að börn þeirra verði í fríi á þessum tíma. Mörg sveitafélög í kringum okkur hafa einnig innleitt þessa breytingu og virðist vera ánægja meðal foreldra um þennan valmöguleika. Með þessari breytingu láta foreldrar vita með fyrirvara hvort börn þeirra taki frí á þessum tímabilum. Þannig getur leikskólinn gert ráðstafanir varðandi orlof starfsfólks, skipulag innra starfs og síðast en ekki síst matarinnkaup sem leiðir til minni matarsóunnar.
Bæjarstjórn samþykkti tillöguna samhljóða þann 16. mars á bæjarstjórnarfundi. Ég er sannfærð um að þetta sé breyting til hins betra.
Hlakka til komandi tíma í leikskólanefndinni
Margrét Bjarnadóttir, formaður leikskólanefndar og bæjarfulltrúi.
Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum, 4.maí 2023.