Vera Rut Ragnarsdóttir býður sig fram í 4. sæti.
Ég er 31 árs, í sambúð með Jóni Hilmari Gústafssyni og saman eigum við Aríönnu Elínu. Við fjölskyldan búum í Urriðaholti, nýjasta hverfi Garðabæjar ásamt hundunum okkar Mikka og Pumba. Ég sækist eftir 4. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.
Ég er alin upp í Garðabæ og þekki það af eigin raun hvernig leikskólar, skólar, félagsstarf og íþróttastarfið er í bænum okkar. Við Jón Hilmar bjuggum á Háteigsvegi þegar við hófum sambúð en þegar við vissum að fjölskyldan væri stækkandi þá sagði ég Jóni að nú væri tími til að flytja heim í Garðabæ því ég vildi hvergi annars staðar ala upp dóttir okkar.
Í dag starfa ég sjálfstætt sem viðburðarstjóri, vinn að stofnun nýs fyrirtækis ásamt tveimur æskuvinkonum mínum úr Garðabæ auk þess stunda ég nám við lagadeild Háskóla Íslands. Áður starfaði ég í Heimahjúkrun hjá Reykjavíkurborg, hjá SÁÁ og tek enn vaktir við og við sem sjúkraliði á smitsjúkdómadeild Landspítalans.
Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á samfélagsmálum og langar að láta gott af mér leiða.
Áherslumál mín eru málefni fjölskyldunnar, leikskólamál, efling heilsugæslunnar og mál eldri borgara.
Ég hef margar hugmyndir fyrir Garðabæ og langar að koma þeim í framkvæmd. Það er vissulega best að búa í Garðabæ, hér má þó margt gera enn betur og mig langar að hjálpa við þá framkvæmd, fái ég til þess stuðning.