Á fundi bæjarstjórnar þann 15. september sl. var samþykkt að fela fjölskyldusviði Garðabæjar, í samráði við fjölskylduráð og samráðshóp um málefni fatlaðra, að yfirfara verklag við gerð áætlana um útvegun viðeigandi húsnæðis fyrir fatlað fólk, þ.m.t. aðgengi fatlaðs fólks og aðstandenda þeirra að upplýsingum um stöðu þeirra á biðlistum bæjarins.
Lagt er upp með að fjölskyldusvið skili niðurstöðum sínum til bæjarráðs hið fyrsta.
Dómur í máli gegn Reykjavíkurborg
Í júní 2021 felldi Héraðsdómur Reykjavíkur dóm í máli sem fatlaður einstaklingur höfðaði gegn Reykjavíkurborg á árinu 2020. Taldi sá einstaklingur og aðstandendur hans að dregist hafi úr hófi að borgin útvegaði honum viðeigandi húsnæði með tilliti til fötlunar hans og ekki lægi heldur fyrir af hálfu borgarinnar persónubundin, einstaklingsmiðuð áætlun um hvenær honum yrði slíkt húsnæði til reiðu.
Af niðurstöðu héraðsdóms má ráða að það feli ekki í sér saknæma eða ólögmæta háttsemi sveitarfélags þótt dráttur verði á úthlutun sértæks húsnæðis til fatlaðs einstaklings, m.a. með vísan til þess mikla uppsafnaða vanda sem kom í ljós eftir að sveitarfélögin tóku við málaflokki fatlaðs fólks í ársbyrjun 2011, enda njóti sá einstaklingur viðeigandi stuðningsúrræða og upplýsingagjafar á biðtíma.
Hins vegar kveður héraðsdómur upp úr með að Reykjavíkurborg hefði átt að gera viðkomandi umsækjanda einstaklingsbundna áætlun um að útvega honum húsnæði og upplýsa hann betur með gegnsæjum hætti um hvenær hann mætti vænta úrlausnar sinna mála.
Reykjavíkurborg áfrýjaði dómnum til Landsréttar en ákvað svo nú fyrir skemmstu að falla frá áfrýjuninni. Stendur því niðurstaða héraðsdóms.
Einstaklingsbundnar áætlanir
Samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms ber sveitarfélagi í sérhverju tilviki við úrvinnslu umsóknar fatlaðs einstaklings um húsnæði að vinna einstaklingsbundna áætlun sem tekur til hagsmuna og málefna þess tiltekna umsækjanda sem fjallað er um hverju sinni.
Þannig getur almenn tímasett uppbyggingaráætlun sveitarfélags ekki komið í stað áætlunar um úrlausn tiltekins einstaklings. Almenn áætlun er ekki gegnsæ á þann hátt að samþykktur umsækjandi geti rýnt hana og dregið af henni ályktun um hvenær hann megi vænta þess að fá húsnæði.
Gegnsæi og fyrirsjáanleiki
Raða ber samþykktum umsækjendum um húsnæði á biðlista eftir sjónarmiðum sem fram eru sett í reglugerð um húsnæðisúrræði fyrir fatlað fólk og reglum sveitarfélags þar um. Skal m.a. taka mið af húsnæðisaðstæðum umsækjanda, lengd biðtíma viðkomandi, hve brýna þörf umsækjandinn hafi fyrir viðeigandi húsnæðisúrræði o.fl.
Samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms er talið málefnalegt þótt ekki sé algerlega forgangsraðað á grundvelli slíkrar flokkunar þar sem unnt er að leysa úr umsóknum þeirra sem einföldustu úrræðin þurfa með miklu minni tilkostnaði og á allt annan hátt. Eðli máls samkvæmt verði listi yfir umsækjendur um sértækt húsnæðisúrræði með tilliti til stuðningsþarfa og félagslegra aðstæðna heldur aldrei njörvaður svo niður að röðin ein og sér ráði. Slíkan lista yrði væntanlega ætíð að setja fram með fyrirvara um brýnni tilvik.
Meginatriði er að gæta þess að upplýsa samþykktan umsækjanda með gegnsæjum hætti um hvenær hann megi vænta húsnæðis svo að umsækjandanum sé staða sín ljós.
Fjölgun búsetuúrræða fyrir fatlað fólk
Um þessar mundir er ríflega hálfnaður gildistími húsnæðisáætlunar Garðabæjar 2018-2025. Samkvæmt áætluninni er fyrirhugað að byggja nýja þjónustukjarna á næstu árum. Þar af eru framkvæmdir hafnar við sjö íbúða búsetukjarna ásamt starfsmannaaðstöðu við Brekkuás og áform eru um uppbyggingu búsetuúrræða í Hnoðraholti.
Markmið með verkefni fjölskyldusviðs í samráði við fjölskylduráð og samráðshóp um málefni fatlaðra er að stytta enn frekar biðlista eftir sértæku húsnæði fatlaðs fólks í Garðabæ og að fatlað fólk sem samþykkt hefur verið á biðlista og aðstandendur þeirra eigi greiðan aðgang að upplýsingum um stöðu umsækjandans á biðlistanum og áætlun um hvenær hann megi vænta úrlausnar sinna húsnæðismála.
Björg Fenger, bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs Garðabæjar
Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi og formaður fjölskylduráðs Garðabæjar
Greinin birtist fyrst í Garðapóstinum, 28.sept 2022.