1. Sæti: Áslaug Hulda Jónsdóttir

1.sæti skipar Áslaug Hulda Jónsdóttir.

Áslaug Hulda er fædd árið 1976, sama ár og Garðabær fékk kaupstaðarréttindi. Hún verður því 42 ára á árinu, rétt eins og Garðabær.

Áslaug hefur verið bæjarfulltrúi frá árinu 2010 og formaður bæjarráðs síðan 2014 en hún er bæði yngst og fyrst kvenna til að taka við formennsku í bæjarráði Garðabæjar. 
Auk starfa innan bæjarstjórnar vinnur Áslaug sem forstöðumaður menntasviðs SVÞ og situr í stjórn Gildis lífeyrissjóðs. Lengst af var hún framkvæmdastjóri Hjallastefnunnar en hún hefur einnig starfað sem aðstoðarmaður mennta- og menningarmálaráðherra, fréttamaður, starfsmanna- og kynningastjóri auk þess sem hún starfaði í félagsmiðstöðinni Garðalundi og stýrði Vinnuskóla Garðabæjar samhliða námi sínu. Áslaug Hulda er grunnskólakennari að mennt og er að auki með AMP úr IESE í Barcelona.

Áslaug er formaður skólanefndar Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Hún hefur sinnt ýmsum trúnaðarstörfum og m.a. verið formaður Samtaka sjálfstætt starfandi skóla, setið í stjórn Viðskiptaráðs, stjórn Barnamenningarsjóðs, stjórn Samtaka verslunar og þjónustu og Vísinda- og tækniráði. Hún hefur tekið þátt í stjórnmálum frá unga aldri og verið formaður Hugins, í stjórn SUS, varaformaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ, hefur verið kosningastjóri flokksins í sveitarstjórnar – og Alþingiskosningum, er varaformaður efnahags- og viðskiptanefndar Sjálfstæðisflokksins, situr stjórn kjördæmisráðs og flokksráði Sjálfstæðisflokksins.

Við spurðum Áslaugu hvað henni finnst skemmtilegt. Svarið var ,,mér finnst gaman að hlæja” og svo hló hún. Aðspurð segist hún veiða á sumrin og skíða á veturna, hún elskar að elda og borða góðan mat með fjölskyldu sinni og vinum.

Hvað skiptir máli: Stjórnmál snúast um forgangsröðun, hvernig gerum við gott samfélag betra. Og það er okkar stjórnmálamannanna að fjölga valkostum fyrir íbúana, því með valinu færum við valdið til íbúanna. Ekki vanmeta ,,litlu málin” þau geta orðið risastór. Gleymum heldur aldrei að bæjarsjóður kemur úr vasa bæjarbúa, það þarf að fara vel með hverja krónu. Og svo á auðvitað alltaf að vera markmiðið að lækka álögur. Síðan er bara ein leið og hún er áfram!