Framsóknarflokkurinn talar Álftanes niður

Það hefur vakið athygli í kosningabaráttunni nú að Framsóknarflokkurinn og frambjóðendur hans hafa valið þá meginstefnu að tala íbúðarhverfið á Álftanesi niður.
Frambjóðendur flokksins halda því ítrekað fram að okrað sé á Álftnesingum með hærra gjaldi fyrir kalda vatnið en aðrir bæjarbúar greiða, sem er alrangt og að vatnsveitan á Álftanesi sé ónýt og íbúum á Álftanesi sé hætta búin af þeim sökum, sem líka er fjarri sanni. Enda fylgja hvorki rök né neinar staðfestar mælingar. Ráðist er á starfsfólk Garðabæjar og heilbrigðiseftirlitsins með brigslyrðum um að þau séu ekki að sinna skyldum sínum.
Veitur, dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur, reka vatnsveituna á Álftanesi og gera það vel.
Viðtæk lekaleit fór fram á Álftanesi í fyrra og fundust nokkrir lekar sem gert var við. Vitað er að vatnsþrýstingur er víða lægri en æskilegt er og að þrýstifall frá aðveituæð bæjarins á þar vissa sök. Verið er að leita leiða til að leysa þessi mál, m.a. er sameiginlegur starfshópur Veitna, Garðabæjar og verkfræðistofunnar Eflu í gangi um þessar mundir. Fyrirhugað er að endurnýja vatnslagnir í Norðurtúni nú í ár og í Túngötu í framhaldi af því.
Ekkert af þessu réttlætir samt þá stefnu Framsóknarflokksins að ala á ótta meðal Álftnesinga eða að ráðast með gífuryrðum á starfsfólk bæjarins og heilbrigðiseftirlitsins.
 
Gunnar Valur Gíslason, bæjarfulltrúi í Garðabæ,
skipar 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins
 
Björg Fenger, varabæjarfulltrúi í Garðabæ,
skipar 7. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins