12. Sæti: Þorri Geir Rúnarsson

12. sæti skipar Þorri Geir Rúnarsson, 22ja ára gamall Garðbæingur.

Starf og starfsferill:�

Ég er á öðru ári í viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík. Samhliða náminu stunda ég knattspyrnu með meistaraflokki Stjörnunnar og hef gert frá því ég man eftir mér. Ég hef unnið fjölmarga titla með Stjörnunni en Íslandsmeistaratitillinn sem við í meistarflokki unnum árið 2014 stendur upp úr. Auk þess hef ég spilað með U21 árs landsliði Íslands.

Félagsmál og þátttaka í stjórnmálum:

Ég tók við sem formaður Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ, í haust. Við í stjórn Hugins höfum staðið fyrir nokkrum viðburðum og tekist vel til. Ég hlakka til að takast á við fleiri verkefni með þeim og reyna að vekja um leið áhuga ungs fólks á starfinu.
Undanfarin ár hef ég séð um fjáraflanir fyrir æfingaferðir hjá meistaraflokki karla í Stjörnunni.
Áhugamál, hvað finnst þér skemmtilegt: Ég æfi fótbolta eins og kemur fram hér að ofan, en það er mitt helsta áhugamál. Ég fylgist vel með íþróttum og hef mikinn áhuga á þeim. Auk þess finnst mér mjög gaman að fara á skíði.

Hvað skiptir máli:

Það skiptir máli að við sjálfstæðismenn höldum áfram að byggja upp bæinn okkar og leggjum þá sérstaka áherslu á að auka framboð af lóðum undir íbúðir fyrir ungt fólk. Ég er hinn dæmigerði ungi maður í sambúð með kærustunni minni, móður, föður, bróður og svilkonu og það er bara eitt baðherbergi. Þó það sé gaman í kotinu hjá okkur gengur þetta ekki til lengdar fyrir gamla settið, þess vegna þurfum við að leysa þennan vanda sem fyrst.

Að sama skapi skiptir máli að við hlúum vel að íþróttafélögunum í bænum og búum þannig um hnúta að þau geti áfram keppt um titla í sem flestum greinum, auk þess sem þau stuðli að almennri hreyfingu meðal bæjarbúa.

Tryggja þarf að skólarnir í bænum verði ævinlega í fremstu röð og sambærilegir við bestu skóla erlendis. Þannig getum við haldið áfram að laða toppfólk til bæjarins.

Bæjarstæði Garðabæjar er einstaklega fallegt, með útsýni yfir Arnarnesvoginn þar sem jökulinn ber við loft á góðum dögum og sólin sígur í sæ á sumrin. Vanda þarf alla uppbyggingu við voginn og sjá til þess að svæðið njóti sín sem best. Í hina áttina er Vífilsstaðavatn og Heiðmörk. Þessum útivistarsvæðum þarf að sinna vel enda snar þáttur í vellíðan bæjarbúa að geta notið þess að fara þar um.