Björg Fenger, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar og formaður íþrótta- og tómstundaráðs, býður sig fram í 2. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ.
Björg hefur verið bæjarfulltrúi síðastliðin 4 ár en þar áður var hún varabæjarfulltrúi. Á yfirstandandi kjörtímabili hefur hún einnig setið í bæjarráði, verið stjórnarformaður Strætó bs. og í samstarfsnefnd skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
Björg hefur jafnframt setið í ýmsum vinnu- og starfshópum. Ber þar hæst að hún leiddi starfshóp vegna undirbúnings byggingar á, Miðgarði, fjölnota íþróttahúsi Garðabæjar. Hún er jafnframt formaður stýrihóps er vinnur að innleiðingu verkefnisins barnvænt sveitarfélag í Garðabæ.
Björg er 43 ára lögfræðingur, gift Jóni Sigurðssyni og saman eiga þau tvo drengi. Sigurð, fæddan 2002, nemanda í HR og Styrmi, fæddan 2006, nemanda í Garðaskóla.
Björg hefur ávallt látið sig nærsamfélagið varða og tekið virkan þátt í gegnum foreldrastarf, stjórnarsetu í íþróttafélögum ásamt þátttöku í sveitarstjórnarmálum. Hún leggur áherslu á fjölskylduvænt samfélag með traustan fjárhag þar sem bæjarbúum á öllum aldri eru skapaðar aðstæður til að lifa góðu lífi meðal annars með framsæknu skólastarfi, heilsueflandi umhverfi og framsýni í skipulagsmálum.
Björg býr yfir fjölbreyttri þekkingu og reynslu til að vinna áfram að því að Garðabær sé eftirsóknarvert bæjarfélag í fremstu röð.
bjorgfenger@gmail.com
bjorgfenger.is
Facebook