9. Sæti: Guðfinnur Sigurvinsson

9. sæti skipar Guðfinnur Sigurvinsson, 40 ára.

Starf og starfsferill:

Samskiptastjóri Vodafone. Áður starfaði ég sem upplýsingafulltrúi og teymisstjóri hjá umhverfisstofnun á árnum 2014-2016 og þar áður frá 2005-2013 sem frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu. 
Ég er með B.A. próf í stjórnmálafræði og MPA gráðu í opinberri stjórnsýslu.

Félagsmál og þátttaka í stjórnmálum:

Ég hef frá unga aldri haft mikinn áhuga á samfélaginu og viljað leggja mitt af mörkum. Ég var mjög virkur í félagslífinu í menntaskóla og var t.d. Inspector scholae síðasta veturinn í Menntaskólanum á Akureyri. Á háskólaárunum sat ég í Stúdentaráði Háskóla Íslands 2001-2003 og var formaður Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta 2002-2003. Ég sat í stjórn SUS, sambands ungra sjálfstæðismanna 2003-2005. Ég hef einu sinni áður verið á lista fyrir sveitarstjórnarkosningar en þá skipaði ég 13. sætið fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjanesbæ 2002.

Áhugamál, hvað finnst þér skemmtilegt:

Ég stunda reglulega líkamsrækt og hef sífellt meiri ánægju af ýmis konar útivist. Ég byrjaði í fyrra í góðum félagsskap á árabretti sem nefnist á ensku „stand up paddling“ og stunda það í næsta nágrenni við heimili mitt, nánar tiltekið Arnarnesvog og nágrenni. Í Garðabæ eru kjöraðstæður fyrir þetta sjósport og ég hlakka mikið til vorsins en mér finnst betra að það sé farið aðeins farið hlýna áður en ég dreg brettið fram.
Annars finnst mér gaman að ferðast bæði hér heima og um önnur lönd og geri mikið af því og svo reyni ég eins og frístundirnar leyfa að lesa bækur, einkum ævisögur, mér til ánægju og yndisauka.

Hvað skiptir máli:

Það skiptir máli að láta samfélagið skipta sig máli. Samfélag manna getur aldrei orðið fullkomlega réttlátt eða gott nema með þátttöku og framlagi allra sem það byggja.

Eitthvað annað:

Garðabær er öflugt bæjarfélag og hér er reglulega gott að búa. Ég sé ekki fyrir mér að flytja héðan og vil að hér dafni áfram blómleg byggð fyrir alls konar fólk og fjölskyldur, það skiptir líka máli að við fáum um alla tíð að njóta útivistar í einstakri náttúru bæjarlandsins. Sameiningin við Álftanes var að mínu mati framfaraskref og spennandi framtíðarsýn blasir við sameinuðu sveitarfélagi. Traustur rekstur er lykilforsenda þess að við getum gripið tækifærin sem bíða. Sjálfstæðisflokkurinn í Garðabæ hefur margsinnis sýnt og sannað að hann er traustsins verður og býður fram að þessu sinni fjölbreyttan lista fólks úr öllum áttum, 12 konur og 10 karla, sem ég veit að mun vinna bænum okkar allt það besta. Ég hlakka til að hitta bæjarbúa á komandi vikum og kynnast bænum mínum enn betur.