Sigrún Antonsdóttir

Kæru Garðbæingar, ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 4.- 6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisfélags Garðabæjar þann 5.mars næstkomandi.

Ég heiti Sigrún Antonsdóttir og er þrjátíu og þriggja ára uppalin Álftnesingur. Ég bý þar ásamt eiginmanni og þremur börnum. Mín reynsla af samfélaginu er mjög víðtæk enda hef ég alist upp í Garðabæ, er foreldri og hef í störfum mínum komið víða við innan sveitarfélagsins. Á mínum bernskuárum stundaði ég nám í Álftanesskóla, Garðaskóla og FG.  Starfaði um tíma sem dagmóðir, vann í leikskólanum Krakkakoti, Álftanesskóla, hjúkrunarheimilinu í Holtsbúð, sá um foreldramorgna í Vídalínskirkju og var yfirmaður kirkjugarðanna í Garðabæ.

Ég er menntuð hjúkrunarfræðingur en á undanförnum árum hefur áhugi minn á bættu skólasamfélagi í Garðabæ leitt mig til starfa sem umsjónar- og sérkennari í Álftanesskóla og mun ég útskrifast  með meistaragráðu í kennslufræðum í vor. Ég hef gríðarlegan áhuga öllu sem viðkemur menntun unga fólksins okkar, íþróttum og tómstundastarfi ásamt því að vinna að heilsueflandi samfélagi.

Bakgrunnurinn minn  veitir mér víðtækan skilning á því hvar áherslur okkar Sjálfstæðismanna í Garðabæ þurfa að liggja. Reynslan mín á störfum innan Garðabæjar  mun koma til með að nýtast mér vel  sem bæjarfulltrúi. Ég hef mikinn áhuga að vinna með fólki, heyra hvað fólk hefur fram á að færa með það að markmiði að gera samfélagið okkar betra.

sigrunantons@gmail.com
Facebook
Instagram