6. Sæti: Almar Guðmundsson

6. sætið skipar Almar Guðmundsson, hagfræðingur og MBA.

Almar (45 ára) er bæjarfulltrúi og hefur á kjörtímabilinu m.a. setið í starfshópum um undirbúning og framkvæmd byggingar fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri. Almar er framkvæmdastjóri Krítar fjármögnunarlausna, sem er nýtt fyrirtæki á sviði veltufjármögnunar fyrir fyrirtæki. Áður starfaði Almar um þriggja ára skeið sem framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins og þar áður sem framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda í fimm ár. Hann hefur því mikla reynslu og innsýn í atvinnulífið og eins vinnu með stjórnsýslu og Alþingi. Fyrir það gengdi hann ýmsum stjórnunarstörfum hjá Íslandsbanka og forverum hans þar sem hann var m.a. framkvæmdastjóri eignastýringar og forstöðumaður greiningardeildar, en hann byggði þá deild upp frá grunni. Almar hefur verið stjórnarformaður Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins undanfarin þrjú ár. Hann hefur í gegnum árin sinnt kennslu í fjármálum, rekstri og stjórnun við Háskólann í Reykjavík meðfram öðrum störfum. „Ég er stoltur af því að hafa í gegnum tíðina fengið góðan vitnisburð frá nemendum mínum og eins jákvæðar umsagnir frá samstarfsfólki í vinnustaðagreiningum. Það gefur mér mikið að finna að þeir sem ég er að vinna með og fyrir kunni að meta það sem ég hef til málanna að leggja“, segir hann.

Hvenær hóf Almar þátttöku í félags- og stjórnmálum:

„Vá, slík störf hafa fylgt mér ansi lengi. Ég var á kafi í félagsmálum í Garðaskóla, FG og HÍ. Var m.a. forseti Nemendafélags FG og oddviti Vöku í Stúdentaráði HÍ. Í seinni tíð hef ég tekið þátt í ýmsu foreldrastarfi í kringum íþróttir barnanna sem leiddi það m.a. af sér að ég varð (óvart) formaður í knattspyrnudeild Stjörnunnar seint á árinu 2009 og gegndi því embætti til hausts 2016. Það var frábær tími með einstöku fólki og mikill uppgangur hjá félaginu á þessum tíma. Svo var ég var í stjórn Hugins félags ungra sjálfstæðismanna í nokkur ár.

En hvað finnst Almari skemmtilegt að gera:

„Það litast nú mikið af fjölskyldunni, en við Guðrún Zoega eigum saman fimm börn á aldrinum fimm til tuttugu og eins. Við fylgjum þeim eftir í íþrótta og tómstundastarfi sem hefur verið upphaf vináttu við mikið af flottu fólki. Við reynum að ferðast saman, fara á skíði og í útilegur osfrv. Það fer dágóður tími líka í að horfa á fótboltaleiki líka. Í seinni tíð hef ég svo farið að stunda langhlaup og er að smitast af hjólabakteríu. Ég stefni á að hlaupa maraþon í ágúst og ætla prófa mig áfram í hjólastússi. Annars er líka skemmtilegt að vera bara innan um fólkið sitt og vini án þess að það sé einhver mögnuð dagskrá í gangi“.

„Í bæjarmálunum finnst mér mestu máli skipta að við höldum áfram að nýta tækifærin til að þróa bæinn áfram. Ég er handviss um að hið öfluga lið á framboðslista okkar mun vinna vel og þétt saman að betri bæ. Það þarf að viðhalda sérstöðu bæjarins í góðri þjónustu í skóla og leikskólamálum, uppbygging nýrra svæða er stórmál og þarf að fylgja vel og skipulega eftir. Mér finnst Vífilstaðalandið mjög spennandi verkefni en á sama tíma þarf að koma Hafnarfjarðarvegi í stokk og byggja það svæði upp í samræmi við nýtt skipulag. Ég er ötull talsmaður þess að við fylgjum góðri fjármálastjórnun fast eftir. Það er eftirsóknarverð staða að búa að góðum rekstri og henni megum við ekki glopra niður. Aðalmálið er svo auðvitað virði fyrir aurinn, þjónustan þarf að vera fyrsta flokks og álögur lágar.“, segir Almar að lokum.