4. Sæti: Gunnar Valur Gíslason

4. sætið skipar Gunnar Valur Gíslason, verkfræðingur með MBA gráðu í viðskiptum og stjórnun.
Gunnar Valur (60 ára) er bæjarfulltrúi, formaður menningar- og safnanefndar og situr fyrir hönd Garðabæjar í stjórn Strætó bs. Hann var forseti bæjarstjórnar hluta af yfirstandandi kjörtímabili og er varamaður í bæjarráði.
Gunnar Valur starfaði sem verkfræðingur á Akranesi frá 1982 til 1992, þar af meðeigandi og framkvæmdastjóri verkfræðistofunnar frá 1988. Var sveitarstjóri Bessastaðahrepps 1992-2004 og bæjarstjóri á Álftanesi 2004-2005. Einnig byggingarfulltrúi og skipulagsfulltrúi 1992-1998. Hann var forstjóri byggingarfélagsins Eyktar ehf. 2005-2012, framkvæmdastjóri fasteignafélaga á Höfðatorgi í Reykjavík síðan 2012 ásamt því að vera framkvæmdastjóri viðskipta og þróunar hjá Mókolli ehf., móðurfélagi Eyktar, Höfðatorgs og fleiri félaga síðan 2014. Sér þar um kaup, þróun og uppbyggingu lóða og fasteigna.
„Ég var sveitarstjóri frá árinu 1992 þangað til Bessastaðahreppi var breytt í Sveitarfélagið Álftanes 2004 og gegndi embætti bæjarstjóra Álftaness fram á mitt ár 2005. Ég var á þessu tímabili, þó ekki samfellt allan tímann, fulltrúi sveitarfélagsins í stjórn byggðasamlaganna Almenningsvagna, Strætó og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, sat í almannavarnanefnd, stjórn SSH og stjórn hjúkrunarheimilisins Holtsbúðar. Var fulltrúi Bessastaðahrepps í byggingarnefnd Fjölbrautaskólans í Garðabæ 1993-1998 og í samvinnunefnd um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins 1998-2002.“

Þú byrjaðir í stjórnmálum á Akranesi, er ekki svo?
„Jú, mín þátttaka í stjórnmálum hófst á Akranesi, enda er ég ættaður þaðan og ólst þar upp. Ég var varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi 1990-1992 ásamt því að sitja í framkvæmdanefnd atvinnumála, stjórn Atvinnuþróunarsjóðs Akraneskaupstaðar, fulltrúaráði Fjölbrautaskóla Vesturlands og stjórn undirbúningsfélags Orkubús Borgarfjarðarhéraðs. Ég sat í framkvæmdastjórn og byggingarnefnd Íþróttabandalags Akraness 1986-1992 og í stjórn útgerðarfélagsins Hafarnarins hf. á Akranesi 1992.
Auk þess sat ég í stjórn byggingarverkfræðideildar Verkfræðingafélags Íslands 1994-1996, þar af sem formaður annað árið, en það starf var alveg ótengt stjórnmálastarfinu mínu á þessum árum.“

Fjölskyldumál og áhugamál
„Konan mín heitir Hervör Poulsen, innfæddur Hafnfirðingur, hún hefur verið bókari hjá SÁÁ síðastliðin 21 ár. Hún er minn besti vinur og félagi í öllu sem ég tek mér fyrir hendur í lífinu. Við eigum fjögur uppkomin börn og átta barnabörn auk þess sem ein dætra okkar varð amma fyrr á árinu svo að þar bættist enn ein lítil prinsessa í barnahópinn.
Frítími okkar hjóna fer mest í að gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni, bæði heimavið og uppi í sumarbústaðnum okkar í sveitinni. Það er ekkert sem veitir manni meiri hvíld frá daglegu amstri en að spá í lífið og tilveruna með yngstu fjölskyldumeðlimunum. Tómstundirnar snúast um golf, fjallgöngur, skógrækt og smíðar í sveitinni ásamt ýmsu öðru sem ungu kynslóðinni dettur í hug að draga ömmu og afa með sér í.“

Hvað skiptir máli?
Ég legg mesta áherslu á styrka fjármálastjórn og að fjárhagur Garðabæjar haldist áfram stöðugur og traustur. Ég vil leggja áherslu á að bæjarbúar, ungir sem aldnir, fái að njóta beint firnasterkrar fjárhagsstöðu bæjarins, bæði með góðri þjónustu á öllum sviðum og að skattar og opinber gjöld á bæjarbúa verði með því lægsta sem þekkist meðal sveitarfélaga.�Nýtt aðalskipulag Garðabæjar, hið fyrsta eftir sameiningu Garðabæjar og Álftaness, er góður grunnur til að byggja áfram sterkt samfélag í bænum. Þar skiptir miklu fjölbreytt þjónusta, góðir skólar og öflugt íþrótta-, tómstunda- og menningarstarf fyrir fólk á öllum aldri.
Ég vil sjá íbúðarbyggð fara að rísa á miðsvæði Álftaness og á Lyngássvæðinu, fjölnota íþróttahúsið í Vetrarmýri taka til starfa, skólana byggjast áfram upp eftir þörfum, stokk utanum Hafnarfjarðarveg milli Lyngáss og Vífilsstaðavegar færast á framkvæmdarstig og fjölnota menningar- og fræðamiðstöð i Garðabæ komast á framkvæmdaráætlun.“