3. Sæti: Sigurður Guðmundsson

3. sæti skipar Sigurður Guðmundsson 47 ára

Starf og starfsferill:

Í dag starfa ég sjálfstætt og rek fyrirtæki sem annast ráðgjöf í greiðslumiðlun. Ég starfaði samhliða námi á Lögfræðistofu Suðurnesja hf. frá 1994 til 1996 og síðan sem löglærður fulltrúi til 1998. Lögfræðingur hjá Húsnæðisstofnun ríkisins síðar Íbúðalánasjóði frá 1998 til 2000. Deildarstjóri Innheimtudeildar Tollstjórans í Reykjavík frá 2000 til 2002. Innheimtustjóri Kreditkorts hf. ( nú Borgun) frá 2002, Innheimtu- og rekstrastjóri Kreditkorts hf. 2004-2005. Forstöðumaður fyrirtækjasviðs Borgunar frá 2005-2010, forstöðumaður Alþjóðasviðs Borgunar hf. frá árinu 2010 til 2017

Félagsmál og þátttaka í stjórnmálum:

Stjórn Hugins félags ungra Sjálfstæðismanna í Garðabæ frá 1994 til 1999, þar af formaður 1996. Stjórn Bókasafns Garðabæjar 1996-1998 og í nefnd um Staðardagskrá 21, 1997-1998. Stjórn fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Garðabæ frá 1996 til 1998, þar af varaformaður 1997-1998. Varabæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn kjörtímabilið 1998-2002 og aftur frá 2010-2014. Sat í stjórn Íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar frá 1998-2006 þar af formaður 1998-2002 og aftur sem formaður frá 2010-2014, í stjórn 19. júní sjóðsins frá 1998-2006. Íþróttanefnd Verzlunarskóla Íslands 1989-1990. Formaður Stéttarfélags Lögfræðinga 2002-2003. Þá hef ég gengt fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir knattspyrnudeild Stjörnunnar, m.a. hef setið í meistaraflokksráði karla og í stjórn 12. Mannsins ehf. Auk þess hef ég setið í milliþinganefndum fyrir KSÍ og setið í Aga- og úrskurðanefnd KSÍ frá árinu 2010.

Áhugamál, hvað finnst þér skemmtilegt:

Ég hef brennandi áhuga á íþróttum. Æfði og þjálfaði knattspyrnu hjá Stjörnunni en í dag eru það helst skíði og útvist sem ég stunda. Þá þykir mér ákaflega skemmtilegt að starfa að bæjarmálum en ég hef setið í bæjarstjórn, bæjarráði og verið formaður skipulagsnefndar á líðandi kjörtímabili.

Hvað skiptir máli:

Það sem skiptir mestu máli eru góð heilsa og vellíðan fjölskyldunnar. Ég er giftur Þórunni Önnu Árnadóttir og við eigum samtals 4 börn á aldrinum 4-16 ára. Hvað bæjarmálin varðar held ég að áframhaldandi traustur rekstur bæjarsjóðs með áframhalandi lækkun á álögum á bæjarbúa skipti miklu. Garðabær er líklega stæðsti einstaki eigandi byggingarlands á höfuðborgarsvæðinu og það skiptir máli hvernig við skipuleggjum það land, tryggjum framboð lóða til Garðbæinga en jafnframt að Garðbæingar allir njóti ávinnings af uppbyggingu þess lands með lægri álögum og bættri þjónustu.

Borgarlínan hefur nokkuð verið í umræðunni síðustu misseri. Ég tel mikilvægt að hún rísi á komandi árum en það má samt ekki vera á kostnað annarra lagfæringa samgöngukerfisins eins og stokkalausna og mislægra gatnamóta á höfuðborgarsvæðinu eða með þrengingu að einkabílnum. Ég lít svo á að Borgarlínan í byrjun sé ekki annað en viðbótar-forgangsrein fyrir strætó sem gengur tíðar á helstu leiðum eða að lágmarki á 10 mínútna fresti. Ef strætó fyllist þá er nauðsynlegt að kaupa lengri strætó á hjólum (bus rapid transit) og ef hann fyllist þá er hægt að leggja teina í forgangsreinarnar og nýta lestar. Ég hvet Garðbæinga til að kynna sér málið á borgarlinan.is.