20. Sæti: Hrannar Bragi Eyjólfsson

Starf og starfsferill:
Ég er nemi í lögfræði við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Ég mun koma til með að ljúka B.A. prófi í vor. Ég hef starfað í ferðaþjónustunni, á vegum Garðabæjar og ég hef starfað fyrir Ungmennafélagið Stjörnuna. Þar hef ég unnið, líkt og svo mörg ungmenni bæjarins, í Vinnuskólanum, bæði sem óbreyttur starfsmaður sem og flokkstjóri. Þá hef ég unnið sem aðal- og aðstoðarþjálfari hjá yngri flokkum handknattleiksdeildar Stjörnunnar. Auk þess hef ég leikið með öllum yngri flokkum Stjörnunnar í handknattleik og leik nú með meistaraflokki félagsins. Þá æfði ég einnig knattspyrnu með yngri flokkum félagsins og hef sennilega mætt á æfingar hjá flestum, ef ekki öllum, deildum félagsins. Ég er mikill Stjörnumaður.

Félagsmál og þátttaka í stjórnmálum:
Ég er núverandi gjaldkeri Hugins, félags ungra sjálfstæðismanna í Garðabæ. Þá sit ég einnig í stjórn Málfundafélags Lögréttu, félags laganema við HR. Eins og hefur komið fram þá hef ég unnið ötullega í þágu Stjörnunnar og ég geri það enn í dag.

Áhugamál, hvað finnst þér skemmtilegt:
Ég hef mikinn áhuga á íþróttum, stjórnmálum og samfélagsmálum í heild. Áhugasvið mitt er ansi vítt og ég ætla ekki að fjölyrða um það hér. Handbolti, fótbolti og aðrar íþróttir þykir mér skemmtilegar. Þá hef ég áhuga á stjórnmálum, íslenskum sem öðrum. Samfélagsleg mál, sagnfræði, lögfræði og heimspeki er eitthvað sem ég gæti pælt í allan liðlangan daginn.

Hvað skiptir máli:
Það skiptir máli að stefna á það að hvergi sé betra að búa en í Garðabæ. Þá meina ég ekki á Íslandi heldur í öllum heiminum. Garðabær á að vera í forystu, leiðandi afl á Íslandi. Hér á fólk að fá tækifæri til þess að ná að uppfylla ítrustu möguleika getu sinnar. Þess vegna verðum við að hlúa að æskunni. Viljum við að framtíðin verði björt verðum við að búa til umhverfi þar sem ungt fólk getur blómstrað. Eins og Sveinn Björnsson, fyrsti forseti lýðveldisins, orðaði það: „Æskan og framtíðin eru óaðskiljanleg hugtök. Ef vér viljum skapa þessari þjóð betri tíð en vér búum sjálfir við, þá þurfum vér að leggja alúð við uppeldi ungu kynslóðarinnar.“

Í Garðabæ þurfum við að búa til aðstæður fyrir skólana okkar og íþróttafélög svo að efnilega æska þessa bæjar nái að verða að þeim fyrirmyndarborgurunum sem leiða munu þetta samfélag síðar meir. Búum til bæ þar sem hvergi er betra að alast upp og búa í.

Eitthvað annað:
Áfram Garðabær.