2. Sæti: Sigríður Hulda Jónsdóttir

2. sætið skipar Sigríður Hulda Jónsdóttir, náms- og starfsráðgjafi og MBA

Sigríður Hulda (53 ára) er bæjarfulltrúi, situr i bæjarráði og er formaður skólanefndar grunnskóla. Hún var forseti bæjarstjórnar hluta af núverandi kjörtímabili og er varamaður í stjórn strætó. Á síðasta kjörtímabili var hún formaður skólanefndar Tónlistarskóla Garðabæjar. Sigríður Hulda rekur eigið fyrirtæki, SHJ ráðgjöf, sem sérhæfir sig í stjórnun, stefnumótunar- og gildavinnu auk fræðslu fyrir fyrirtæki og stofnanir. Áður var hún forstöðumaður Stúdentaþjónustu Háskólans í Reykjavík en hún hefur víðtæka reynsu í menntamálum, sem náms- og starfsráðgjafi, stjórnandi og kennari. Strax að háskólanámi loknu hóf hún störf við Fjölbrautaskólann í Garðabæ og var þar náms- og starfsráðgjafi og kennari í 13 ár. Sigríður er með BA próf í uppeldis- og menntunarfræði og kennsluréttindi, MA gráðu í náms- og starfsráðgjöf og MBA gráðu í viðskiptum og stjórnun.

Sigríður hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir mennta- og menningarmálaráðuneytið og landlæknisembættið sem lúta m.a. að stefnumótun og forvörnum, s.s. verkefnisstjóri lýðheilsu- og forvarnaverkefna. Hún hefur tekið þátt í mörgum erlendum rannsóknarverkefnum á sviði menntamála og stjórnunar sem hafa hlotið viðurkenningar sem ,,best practice“ verkefni. Hlaut Fulbright styrk og starfaði þá í Career Resources Development Center í San Fransisco. Auk þess gefið út námsefni um lífsleikni og bók um hópráðgjöf, ásamt tveimur öðrum náms- og starfsráðgjöfum. Bókin hefur verið þýdd á þremur tungumálum og er kennd í háskólum hérlendis og á Norðurlöndum.

Hvenær hóf Sigríður þátttöku í félags- og stjórnmálum: ,,Virkni í félagsmálum hefur alltaf einkennt mig, það skiptir máli að koma sínum sjónarmiðum á framfæri þar sem hægt er að vinna með hlutina“ segir Sigríður sem tók virkan þátt í félagslífi í menntaskóla og hefur verið í foreldrafélögum í Garðabæ. Hún var um árabil í stjórn Félags náms- og starfsráðgjafa, hefur verið fulltrúi mennta- og menningarráðuneytis og landlæknisembættisins í ýmsum stjórnum svo sem hjá Fjölsmiðjunni, Rannsóknum og greiningu, Jafningjafræðslunni og Áfengis- og vímuvarnaráði. Hún er félagi í Rótarý og Delta Kappa Gamma þar sem hún hefur sinnt formennsku. ,,Sveitarstjórnarmálin eru þjónustu við bæjarbúa og ég hef lengi haft áhuga á að leggja mitt af mörkum í því að gera gott bæjarfélag betra með áherslu á fagmennsku og góða tengingu við bæjarbúa. Ég hef um árbil verið virk í Sjálfstæðisfélaginu í Garðabæ, var formaður þar í þrjú ár þegar félagið stóð fyrir og skiplagði hvatningarnámskeið fyrir allar konur í Garðabæ, kom á páskaeggjaleit og gaf út málgagnið Garðar. Ég hef tekið virkan þátt í mörgum kosningum fyrir Sjálfstæðiflokkinn.“ segir Sigríður Hulda.

En hvað finnst Sigríði Huldu skemmtilegt að gera? ,,Góður félagsskapur, krefjandi verkefni og friður náttúrunnar er það besta! Ég er alin upp í sveit, náttúran gefur mér orku og og útivist er stór hluti af mínum lífsstíl. Að reima á sig skóna og fara út að skokka eftir annasaman dag er dásamlegt! Það hreinsar hugann og gefur góða yfirsýn yfir málin, forgangsröðun og lífið sjálft. Fjölskyldan er hornsteinn sem skapar gleði og merkingu í tilveruna. Við ferðumst mikið saman og römmum líka inn hversdagslegu stundirnar og njótum þeirra. Ég hef líka mjög gaman af því að fræðast, takast á við ný verkefni og kynnast nýju fólki. Þannig vex maður sem persóna og fagmaður, áskoranir eru gefandi og nauðsynlegt krydd í tilveruna.“