18. Sæti: Sigrún Gísladóttir

18. sæti skipar Sigrún Gísladóttir

Í Garðabæ hef ég líklega búið lengur en flestir. Foreldrar mínir byggðu hús í Garðahreppi og þangað fluttum við árið 1954. Ég lagði stund á ballettnám í 13 ár og var í sýningarflokki Þjóðleikhússins. Manninum mínum, Guðjóni Magnússyni, kynntist ég á menntaskólaárum okkar í MR. Ég vann fyrir læknanemanum með kennslu við Öldutúnsskóla í Hfj og var jafnframt flugfreyja hjá Loftleiðum á sumrin og í jólafríum. Leigðum við íbúð á Stórásnum í nálægð við æskuheimili mitt. Við eignuðumst þrjá syni, Arnar og tvíburana Halldór og Heiðar. Búseta okkar var lengi erlendis í Edinborg, Stokkhólmi og síðar í Gautaborg og Kaupmannahöfn.

Árið 1984 tók ég við draumastarfinu sem skólastjóri Flataskóla í Garðabæ. Tók virkan þátt í starfi sjálfstæðisflokksins og var tvö kjörtímabil í bæjarstjórn. Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á félagsmálum og tekið að mér margvíslega verkefni á þeim vettvangi. Áhugi minn hefur aðallega beinst að þjóðfélagslegum umbótum, jafnréttismálum og menntamálum. Hef unnið ötullega að þeim málum með þátttöku í ýmsum nefndum og ráðum og með greinaskrifum í blöð.

Eftir tuttugu ára gjöfult starf í Flataskóla (og 8 ára fjarbúð), tók ég þá erfiðu ákvörðun að segja upp starfinu og flytja til Kaupmannahafnar þar sem Guðjón var orðinn framkvæmdastjóri hjá WHO, Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni . Þar tók ég að mér leiðsögn fyrir Íslendinga um söguslóðir landans og hef sinnt því sl fimmtán ár. Skrifaði og gaf út bókina „Kaupmannahöfn í máli og myndum“.

Stuttu eftir flutninginn heim varð Guðjón bráðkvaddur. Ég var meðlimur í Rótarýklúbbnum Görðum hér í Garðabæ og þar hef ég fengið smá útrás fyrir félagsþörfina. Sundlaugin í Ásgarði og leikfimin hjá Birnu hafa einnig verið minn griðastaður. Golfíþróttin hefur tekið við af skíðunum og vera mín í Golfklúbbnum Oddi, í einstöku umhverfi og góðum félagsskap, er allra meina bót. Synir okkar hafa fært mér 8 yndisleg barnabörn.

Áhugi minn á okkar góða og fallega bæjarfélagi, Garðabæ, brennur enn. Börnin, hin upprennandi kynslóð, eru það mikilvægasta sem við eigum. Framtíð lands og þjóðar byggist á að við gefum þeim gott veganesti út í lífið. Nú verðum við, skólarnir og ekki síst foreldrarnir, að kappkosta að veita þeim uppeldi og menntun til þess tíma sem framundan er – en ekki þess sem er að líða.

Íbúasamsetning í bæjarfélaginu okkar er óðum að breytast og eldri borgurum hefur fjölgað mikið og mun enn fjölga á næstu árum. Takmark okkar á að vera að bæta lífi við árin hjá þeim sem eldri eru. Til að það takist verður að hvetja og gefa þeim fjölbreytt tækifæri til hreyfingar og útiveru. Nú er verið að huga að skipulagi íþróttasvæðis í nálægð Vífilsstaða. Þar vil ég sjá góða aðstöðu fyrir almenningsíþróttir og sundlaug sem hvetur eldri Garðbæinga til að viðhalda góðri heilsu og hreyfifærni til sjálfsbjargar.