Bjarni Th. Bjarnason

Ég hef ákveðið að gefa kost á mér í 4.-6. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Garðabæ þann 5. mars.

Sjálfstæðisstefnan er samþætting frjálslyndra og íhaldssamra gilda. Þannig varð okkar flokkur til. Ég fylgi þeirri stefnu með áherslu á að einstaklingsfrelsið sé kjarninn í þeirri hugmyndafræði.

Ég er varabæjarfulltrúi og hef setið í fjölskylduráði frá 2018. Jafnframt er ég formaður samráðshóps um málefni fatlaðra og varaformaður Sjálfstæðisfélags Garðabæjar síðan árið 2018.

Rekstur Garðabæjar hefur verið í ágætum málum og þar viljum við sjá hann. Gera mætti enn betur með því að halda álögum í lágmarki. Ég vil að fasteignaskattur á fólk og fyrirtæki verði lækkaður eftir gríðarlegar hækkanir fasteignamats undanfarin ár. Að auki tel ég að alltaf eigi að halda útsvari í lágmarki.

Ég vil nýta velferðartækni í meira mæli í félagsþjónustu Garðabæjar við aldraða og fatlað fólk. Tæknin er til að auka gæði þjónustu ásamt því að vera rekstrarlega hagkvæm.

Skólamálin, stærsti útgjaldaliður Garðabæjar, hafa verið til fyrirmyndar. Garðabær hefur stutt við einkaskóla eins og t.d. Hjallastefnuna. Sjálfstætt starfandi skólar verða að vera hluti af vexti skólakerfis Garðabæjar til framtíðar.

Ég tel að áhugi minn á sveitarstjórnarmálum, reynsla af þeim vettvangi, reynsla af félagsstarfi innan íþróttahreyfingarinnar og víðtæk reynsla úr viðskiptalífinu sé gott veganesti til starfa í bæjarstjórn.

b@btbjarna.is