15. Sæti: Bjarni Th. Bjarnason

15. sætið skipar Bjarni Th. Bjarnason, 53 ára, viðskiptafræðingur og MBA

Starf og starfsferill:
Bjarni Th. er sveitarstjóri Dalvíkurbyggðar frá 2014 og mun ljúka þar störfum við lok kjörtímabilsins. Er fæddur á Dalvík en flutti fyrst í Garðabæ árið 2004. Um fimmtán ára skeið starfaði Bjarni hjá BYKO, Norvik og tengdum félögum áður en hann tók við starfi sveitarstjóra á Dalvík. Bjó og starfaði m.a. í eitt ár í Lettlandi þar sem verkefnin voru innkaup á timbri og stjórnun eins af fyrirtækjum Norvikur í Lettlandi. Var um árabil sölu- og útgerðarstjóri hjá Fiskafurðum hf. og síðar framkvæmdastjóri Ellingsen hf. áður en leiðin lá til BYKO. Með hinum ýmsu störfum hefur Bjarni starfað sem skíðaþjálfari yfir 30 ár og hefur stundum leyst af skíðaþjálfara á Dalvík á undanförnum árum.
Bjarni Th. hefur setið í stjórnum ýmissa félaga og félagasamtaka samhliða sveitarstjórastörfum og má þar nefna: Rætur b.s. um málefni fatlaðra á Norðurlandi, Almannavarnanefnd Eyjafjarðar, stjórnarformaður Dalbæjar dvalarheimilis aldraðra á Dalvík síðan 2014, stjórn EYÞINGS (landshlutasamtaka Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslna), stjórn AFE (Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar), stjórn Moltu ehf. sem er jarðgerðarstöð að mestu í eigu sveitarfélaga, stjórn Flokkunar Eyjafjarðar ehf. sem er í eigu sveitarfélaga og er samstarfsvettvangur um sorpeyðingu í Eyjafirði, varamaður í stjórn MA og varamaður í stjórn Samtaka sjávarútvegsfyrirtækja.

Félagsmál og þátttaka í stjórnmálum:
Bjarni Th. gekk í Sjálfstæðisflokkinn um leið og hann hafði aldur til og starfaði með flokknum frá barnæsku. Hann sat í stjórn Varðar FUS öll árin á meðan hann var í MA og sat í stjórn SUS um tveggja ára skeið. “Ég man eftir mínum fyrsta landsfundi þegar ég var líklega 18 ára en þá var Geir Hallgrímsson formaður Sjálfstæðisflokkins. Hef síðan þá náð að heilsa öllum formönnum og varaformönnum flokksins.”
Bjarni hefur sótt landsfundi Sjálfstæðisflokksins reglulega í gegnum tíðina og stundum verið virkur í almennum félagsstörfum hjá flokknum þegar aðstæður hafa leyft.
Skíðaþjálfarastarfið hefur kallað á mikil félagsstörf innan skíðahreyfingarinnar og eru ófá Skíðaþingin sem Bjarni hefur setið sem fulltrúi síns skíðafélags. Bjarni var virkur í starfi Round Table á Íslandi á árum áður og gengdi þar m.a. starfi gjaldkera og formanns RT2 hefur nú starfað í bráðum 20 ár í Frímúrarahreyfingunni á Íslandi.

Áhugamál, hvað finnst þér skemmtilegt:
“Skíði og golf eru þær íþróttir sem ég helst stunda með eiginkonunni, vinum og fjölskyldu. Stunda stangveiði, sjóstöng, skotveiði og hef einnig mjög gaman af fjallgöngu. Lestur góðra bóka er stór hluti af mínum áhugamálum og svo hef ég brennandi áhuga á framgangi sjálfstæðisstefnunnar.”

Hvað skiptir máli:
Fjölskyldan og vinir er það sem skiptir mestu máli hjá Bjarna. Eiginkona Bjarna er Iðunn Jónsdóttir, viðskiptafræðingur, Garðbæingur, stúdent frá FG og spilaði fótbolta með Stjörnunni. Yngsta barn Bjarna heitir Jakob Helgi (22) og náði því að stunda nám í Garðabæ eftir að fjölskyldan flutti þangað. Hann varð nemandi í Sjálandsskóla við stofnun skólans og varð jafnframt fyrsti og eini nemandinn sem útskrifaðist úr skólanum árið 2010. Eldri börn Bjarna eru Atli (33), Berta (29) og Gabríel Þór (28).

Garðabær er firnasterkt sveitarfélag jafnt fjárhagslega sem og félagslega. Garðabær þarf að halda stöðu sinni sem eftirsóknarvert sveitarfélag til að búa í. Með áframhaldandi öflugri og styrkri stjórn sjálfstæðismanna í Garðabæ eru allir vegir færir.