10. Sæti: Stella Stefánsdóttir

10. sæti skipar Stella Stefánsdóttir, 49 ára

Starf og starfsferill: Í dag er ég sjálfstætt starfandi og doktorsnemi í nýsköpun við Háskóla Íslands. Fyrri störf: Framkvæmdastjóri Hvalasýningarinnar, Whales of Iceland, alþjóðlegur vörustjóri í þróunardeild hjá Össuri, stjórnunar- og rekstrarráðgjafi hjá Deloitte – ráðgjöf og VSÓ – ráðgjöf, markaðsstjóri hjá Karli Karlssyni heildverslun, markaðsdeild hjá Robert Bosch GmbH í Þýskalandi. Ég hef einnig kennt við viðskiptadeild Háskóla Íslands, verið stjórnarformaður Íshesta, setið í fagráðum Tækniþróunarsjóðs, og í norrænum fagráðum Nordic Innovation í Noregi. Ég er viðskiptafræðingur (Cand.oecon) frá Háskóla Íslands með meistaragráðu í logistics & innovation (M.Sc./Cand.merc) frá Copenhagen Business school.

Félagsmál og þátttaka í stjórnmálum: Á þeim þrettán árum sem við fjölskyldan höfum búið í Garðabæ hef ég tekið afar virkan þátt í félagsstörfum tengdum dætrum mínum í skólum bæjarins og íþróttafélaginu Stjörnunni, t.d. setið í stjórn foreldrafélags Hofsstaðaskóla í 4 ár, setið í fjölmörgum foreldraráðum í knattspyrnu- og handknattleiksdeildum Stjörnunnar, og setið í Grunnstoð (samráðsvettvangur skóla í Garðabæ). Ég er virkur meðlimur í Rótarý klúbbnum Görðum og hef m.a. setið í stjórn þar og verið gjaldkeri klúbbsins. Þá tók ég einnig þátt í félagslífi í framhaldsskóla og var m.a. í ritstjórn Verzlunarskólablaðsins.

Áhugamál, hvað finnst þér skemmtilegt: Mér finnst fátt skemmtilegra en að hafa gaman með fjölskyldunni og/eða í góðra vina hópi á ferðalögum, við einhverskonar útivist eða hreyfingu. Ég hef mjög gaman að ferðalögum innanlands sem utan. Oftar en ekki eru ferðalögin tengd skíðum, gönguferðum og í fyrsta sinn í fyrra hjólum. Við fjölskyldan förum mikið á skíði. Einnig hef ég yndi af gönguferðum með gönguhópunum mínum. Í fyrra byrjaði ég að byrja að prófa mig áfram í golfi með frábærum hópi kvenna. Ég stunda líkamsrækt hjá Guðbjörgu í G-fit, en hún tryggir að ég fari full af orku út í daginn.

Hvað skiptir máli: Fjölskyldan, góð heilsa, heilindi, og að vera gefandi í víðum skilningi skiptir mig mestu máli, auk þess sem ég legg áherslu á að njóta stórra og smárra augnablika. Að mínu mati finnst mér einmitt að nærsamfélagið eigi að endurspegla þau gildi sem skipta mig máli og veita okkur tækifæri til að njóta lífsins. Mér finnst skipta máli að Garðabær er fjölskylduvænt samfélag þar sem gott er að eldast og fólk getur notið sín með tilliti til útivistar, hreyfingar, íþrótta og menningar. Við erum svo heppin að búa við yndislegar útivistarperlur, s.s. Heiðmörk, hafið, hraunið, litla baðströnd og frábærar göngu- og hjólaleiðir. Það eru framúrskarandi skólar í bænum. Við höfum öflug íþróttafélög og góðar aðstæður til að stunda almenningsíþróttir. Þessar aðstæður veita okkur tækifæri til að hlúa enn frekar að einstökum bæjarbrag í góðri sátt og í samveru við aðra bæjarbúa, þar sem allir skipta máli og eru reiðubúnir til að gefa af sér.

Eitthvað annað: Ég tel að Garðabær sé gott samfélag með góðum bæjarbrag sem er mikilvægt að viðhalda á sama tíma og fjöldi íbúa í bæjarfélaginu vex. Mér finnst mikilvægt að vinna áfram að ráðdeild í rekstri bæjarfélagsins, en viðhalda jafnframt háu þjónustustigi og gæta hófsemi við álagningu opinberra gjalda. Að mínu mati þarf að standa vörð um árangur í skólamálum og stefna að því að halda þeim ávallt í fremstu röð. Skipulags- og samgöngumál eru mér afar hugleikin. Það eru fyrirsjáanlegar áskoranir við að viðhalda bæjarbrag og nánd íbúa með góðu skipulagi og skilvirkum samgöngum innan bæjarfélagsins, að sama skapi þarf að tryggja öflugar samgönguæðar til og frá bænum.